GPS, örugg tjáning og endurmenntun atvinnubílstjóra hjá FRMST

 

Hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða (FRMST) er iðulega nóg um að vera og verður þar í næstu viku boðið upp á GPS námskeið, en talsvert er um liðið síðan slíkt námskeið var síðast í boði. Á námskeiðinu verður fjallað um GPS tækið, helstu virkni og meðferð ferla, punkta og leiða. Það hentar sérlega vel þeim sem nota GPS til leiðsögu á göngu, í bíl eða á sleða. Kennari á námskeiðinu er Gunnlaugur I. Grétarsson, leiðbeinandi hjá Björgunarskóla Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Kennt verður fimmtudaginn 4. maí frá klukkan 18-22 og þurfa nemendur að hafa með sér GPS-tæki.

Þá er á leiðinni vestur fjölmiðlakonan Sigríður Arnardóttir, sem margir kannast við sem Sirrý, og verður hún með vinnustofu í framsækni og öruggri tjáningu. Þar verður farið í undirbúning fyrir kynningar eða ræður, að takast á við sviðsskrekk og nýta sér kvíðann og kennd tækni við góða kynningu ásamt fleiri gagnlegum þætti. Vinnustofan er hagnýt og hvetjandi fyrir þá sem vilja efla sig eða þurfa starfs síns vegna að koma fram og halda ræður eða kynningar. Námskeiðið með Sirrý verður 11. maí frá klukkan 13‒17.

Í maí og júní  boðuð upp á endurmenntun atvinnubílstjóra með ökuréttindi í flokkum C1, C, D1 og D, en atvinnubílstjórum í vöruflutningum og farþegaflutningum í atvinnuskyni er gert að sækja 35 kennslustunda endurmenntun á fimm ára fresti. Námskeiðin eru fimm talsins sjö kennslustundir hvert. Þeir bílstjórar sem fengið hafa réttindi sín fyrir 10. september 2013 þurfa að ljúka endurmenntun fyrir 10. september 2018. Allir sem endurnýja ökuskírteini með þessum flokkum eftir þann tíma þurfa að hafa lokið endurmenntun.

Frekari upplýsingar um námskeiðin og skráning á þau fara fram á vef FRMST og þar má einnig sjá annað sem er í farvatninu.

annska@bb.is

DEILA