Flugfargjöld hækkuðu um fimmtung

Flug­far­gjöld inn­an­lands hækkuðu um 19% milli mánaða og flug­far­gjöld til út­landa um 13% sam­kvæmt tölum hagfræðideildar Landsbankans. Hagfræðideildin hafði í spám sínum gert ráð fyrir óbreyttum flugfargjöldum. Vísi­tala neyslu­verðs hækkaði um 0,50% milli mánaða í mars og er það yfir op­in­ber­um spám sem lágu á bil­inu 0,2% til 0,4%.

Hag­fræðideild Lands­bank­ans hafði spáð 0,2% hækk­un milli mánaða. Mun­ur­inn á spánni og töl­um Hag­stof­unn­ar skýrist ann­ars veg­ar af því að reiknuð húsa­leiga hækkaði meira en bú­ist var við og hins veg­ar af því að flug­far­gjöld hækkuðu milli mánaða.

Sem fyrr er húsnæðiskostnaður aðaldrifkraftur verðbólgu. Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði um 2,6% milli mánaða. Ef horft er framhjá húsnæði þá var verðlag óbreytt milli mánaða og mælist 1,8% verðhjöðnun með þeirri vísitölu.

Tólf mánaða hækkun húsnæðisliðarins er 15,8%, þar af er tólf mánaða hækkun greiddrar húsaleigu 3,8% og reiknaðrar húsaleigu 20,2%. Vegna styrkingar krónunnar mælist um 4,8% verðhjöðnun á innfluttum vörum. Einnig mælist verðhjöðnun á innlendum vörum, en þær hafa lækkað um 0,8% milli ára.

DEILA