Flest páskaegg hafa lækkað í verði síðan í fyrra

Páskaegg hafa í flestum tilvikum lækkað í verði frá því í fyrra að því er fram kemur í samanburði á verðkönnunum verðlagseftirlits ASÍ milli ára. Dæmi eru þó um allt að 10% hækkun á eggjum frá því í fyrra. Mesta lækkunin milli ára á páskaeggjum var hjá Iceland þar sem verð hefur ýmist staðið í stað milli ára eða lækkað um allt að 15%. Í Fjarðarkaupum lækkar einnig verð á flestum páskaeggjum sem til voru í báðum könnunum, um allt að 11% að undanskyldu Góu páskaeggi nr. 3 sem hækkar um 10% frá fyrra ári.

Í Nettó lækkar verð á öllum þeim eggjum sem til voru í báðum könnunum, en þess má geta að engin egg frá Freyju voru fáanleg í Nettó þegar verðkönnunin var framkvæmd í fyrra og því nær samanburðurinn til fárra vöruliða. Í Bónus og Krónunni lækka flest egg sem til voru í báðum könnun um allt að 6% að undanskyldum eggjum frá Góu sem hækka í báðum verslunum sem og Draumaegg nr. 9 frá Freyju. Í Hagkaupum ýmist hækkar eða lækkar verðið milli ára en einungis reyndist unnt að bera saman verð á 7 af þeim 10 eggjum sem fáanleg voru í báðum könnunum vegna ófullnægjandi verðmerkinga.

DEILA