Fimmtungur aflans unninn erlendis

Á árinu 2015 nam steinbítsaflinn hér við land 8.055 tonnum, þar af voru 1.654 tonn flutt óunnin úr landi eða 20,5% af heild. Á árinu 2016 veiddust 8.660 tonn af steinbít og voru 1.513 tonn flutt óunnin úr landi eða 17,5%. Þetta kemur fram í nýjustu Fiskifréttum.

„Þegar verið er að ýja að því að fiskvinnsla kunni að flytjast úr landinu virðist það gleymast að þetta á sér stað nú þegar. Töluverður hluti steinbítsaflans á Íslandi er unninn í Skotlandi og Englandi og sömuleiðis er mikil steinbítsvinnsla í Boulogne Sur Meer í Frakklandi,“ segir Óðinn Gestsson framkvæmdastjóri Íslandssögu á Suðureyri í samtali við Fiskifréttir.

Steinbíturinn er seldur á íslensku fiskmörkuðunum og fluttur óunninn utan í gámum. Skoskt fyrirtæki kaupir mikið og eins hefur íslenskt/franskt/enskt fyrirtæki verið umsvifamikið í þessum viðskiptum og ráðandi á markaðnum í Frakklandi undanfarin ár, að sögn Óðins.

DEILA