Ekki verið að hægja á lögformlegu ferli fiskeldis

Það blasir við hvað sjávarútvegsráðherra meinar með orðum sínum um að hægt verði á eldisumsóknum að mati Einars K. Guðfinnssonar, formanns Landssambands fiskeldisstöðva. „Ráðherra er augljóslega að vísa til þeirra umsókna sem eru ekki komnar í lögformlegt ferli,“ segir Einar.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 á þriðjudag sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra að „menn hægi á þessum umsóknum sínum þangað til að við erum komin með skýra stefnu í laxeldis- og fiskeldismálum.“

„Ég lít þannig á að hún sé ekki að segja að það eigi að hægja á hinu lögformlega ferli enda eru mörg mál langt komin og það má vænta niðurstöðu fljótlega með einhver þeirra. Ráðherra er að beina þeim orðum til forsvarsmanna fiskeldisfyrirtækja að þeir hægi á þeim áformum sem eru komin skemmra og ekki í ferli hjá opinberum stofnunum,“ segir Einar.

Í gær var greint frá annarri hópmálsókn gegn sjókvíeldi en það er mál málsóknarfélagsins Náttúrverndar 2 gegn Löxum Fiskeldi á Reyðarfirði og Matvælastofnun. Í vetur var þingfest mál málsóknafélagsins Náttúverndar 1 gegn Arnarlaxi, Umhverfisstofnun og Matvælastofnu. Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður flytur bæði málin.

Einar segir ekkert óvænt í því að önnur málsókn sé komin fram. „Þegar fyrsta málsóknin var kynnt í fjölmiðlum var sagt að það væri verið að boða stríð gegn laxeldi þannig að það kemur ekki á óvart að þetta málsóknafélag haldi áfram.“

DEILA