Efins um laxeldi í Jökulfjörðum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er efins um laxeldi í Jökulfjörðum. Ráðherra var til svara um fiskeldi í Kastljósi RÚV í gær. Þorgerður Katrín hefur kallað eftir því að hægt verði á laxeldisumsóknum en sagði jafnframt að það væri snúið fyrir ráðherra og stjórnsýsluna að hægja á ferlinu. „Lagalega er þetta snúið, en það sem ég er fyrst og fremst að hugsa þegar ég tala um að menn hægi á sér, er að menn séu ekki að drita umsóknum á hvaða staði sem er. Afhverju eru menn að sækja um í Jökulfjörðum? Bara til að eigna sér svæði? Mér finnst það ekki siðferðislega rétt, fyrir utan að ég tel að Jökulfirðir og Hornstrandir eru ákveðnir fjársjóðir fyrir Vestfirðinga varðandi ferðaþjónustuna.“

Arnarlax hf. á Bíldudal hefur sótt um 10 þúsund tonna laxeldisleyfi í Jökulfjörðum. Fyrirtækið er einnig með umsókn í Eyjafirði. Ráðherra benti einnig á áformin í Eyjafirði og velti því upp hvort að ekki ætti að sjá til fyrst hvernig það gangi að byggja upp markvissa stefnu í fiskeldi áður en lengra er haldið.

Þorgerður Katrín tók skýrt fram að hún sér mikla framtíð í sjókvíaeldi á Íslandi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

 

 

DEILA