Byggðarannsóknarstyrkur vestur

Jón Jónsson

Úthlutun úr Byggðarannsóknasjóði var kynnt á ársfundi Byggðastofnunar þann 25. apríl. Eldra fólk, innflytjendur, lögreglan, ferðaþjónusta og sjávarlíftækni eru viðfangsefni þeirra rannsókna sem stjórn Byggðarannsóknasjóðs ákvað að styrkja í ár.

Eitt þeirra verkefna sem hlaut styrk að þessu sinni er rannsóknarverkefni Rannsóknarseturs á Ströndum og er heiti verkefnisins Samspil ímyndar, sjálfsmyndar, fjölmiðlaumfjöllunar og markaðssetningar í ferðaþjónustu. Að sögn Jóns Jónssonar, ábyrgðarmanns verkefnisins er markmið þess að greina og varpa ljósi á þau gagnvirku áhrif sem sjálfsmynd íbúa á tilteknum svæðum og ímynd sömu svæða hafa hvort á annað. Verkefnið snýst um að safna gögnum og rannsaka, greina og túlka samspil ólíkra þátta sem tengjast sjálfsmynd íbúa á afmörkuðu, fámennu og dreifbýlu landsvæði og ímynd byggðarlaga á sömu stöðum. Sérstaklega verða til skoðunar áhrif markaðssetningar svæðisins í ferðaþjónustu og umfjöllunar fjölmiðla á sjálfsmynd og ímynd. Eins verða skoðuð áhrif menningarverkefna og uppbyggingar þeirra á einstökum svæðum. Rannsóknarsvæðið er Vestfjarðarkjálkinn og verður aðferðarfræði og vinnubrögðum þjóðfræðinnar beitt við greiningarvinnuna.

Verkefnið verður unnið innan vébanda Rannsóknarseturs HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu sem hefur höfuðstöðvar í Þróunarsetrinu á Hólmavík

Byggðarannsóknasjóður var stofnaður haustið 2014 og er fjármagnaður af fjárlagalið byggðaáætlunar og með framlagi frá Byggðastofnun. Til úthlutunar eru 10 m.kr. Auglýst var eftir umsóknum í sjóðinn í lok janúar og umsóknarfrestur rann út þann 9. mars. Alls bárust 25 umsóknir, samtals að upphæð 72,8 m.kr. Umsóknirnar voru afar fjölbreyttar og uppfylltu allar skilyrði sjóðsins.

 

DEILA