Bjóða upp á myndlistarnámskeið fyrir unglinga

Mynd úr safni frá Degi myndlistar í Edinborg .

Listaskóli Rögnvaldar Ólafssona stendur fyrir myndlistanámskeiði fyrir börn og unglinga á aldrinum 12 – 16 ára í Menningarmiðstöðinni Edinborg, námskeiðið stendur í rúman mánuð og verður kennt einu sinni í viku tvo tíma í senn. Kennari á námskeiðinu er myndlistarkonan Solveig Edda Vilhjálmsdóttir sem segir námskeiðið vera hvatningu fyrir ungt fólk sem hefur áhuga á listum til að njóta eigin hæfileika og fá kost á að þjálfa þá.

Solveig hefur víðtæka reynslu af myndlist, bæði hefur hún verið iðin við eigin myndlist og hélt síðast einkasýningu í Bryggjusal Edinborgarhússins síðasta haust og einnig hefur hún talsvert fengist við að myndlistarkennslu og segir hún yndislegt að fá að sjá nemendur vakna og finna listamanninn í sér. Að þessu sinni segir Solveig áherslurnar vera á klassískar aðferðir í teikningu, litameðferð og málun.

Solveig Edda vinnur nú að næstu einkasýningu sem verður utan landssteinanna og einnig er hún í samstarfi við finnsku listakonurnar Hennu-Riikku Nurmi, Marjo Laathi og Johanna Hyytinen að sýningu sem nefnist Undir yfirborði og verður frumsýnd í haust.

Myndlistarnámskeiðið hefst 21.apríl og er skráning á listaskóli@edinborg.is og í síma 4565444.

annska@bb.is

DEILA