Aldrei fór ég suður: Hátíð samfélagsins

Allt ætlaði um koll að keyra í skemmunni er Emmsjé Gauti gerði sér lítið fyrir og fleygði sér út í mannhafið. Mynd: Ásgeir Helgi Þrastarson.

Rokkhátíðin Aldrei fór ég suður fór fram um páskana á Ísafirði líkt og lög nútímans gera ráð fyrir. Að þessu sinni var sérstakt samráð haft við veðurguðina og skemmtu ungir sem aldnir sér saman í einskærri gleði og spekt undir fjöllunum háu í Kampa-skemmunni. Bæjarins besta sló á þráðinn til rokkstjórans og hafði hann fram úr fyrir allar aldir á degi sem annars ætti að vera nýttur til að hvíla lúin rokkbein eftir atganginn síðustu daga. Kristján Freyr var þó hress að vanda og sagðist varla vera kominn niður á jörðina eftir alla gleðina sem einkenndi Aldrei fór ég suður, nú sem iðulega. Hann sagðist jafnframt ekki vita hvernig að hann gæti tjáð sig öðruvísi en með klisjukenndum hætti því allt hafi gengið svo glimrandi vel:

„Þetta var algjör gleðisprengja og það var sama hvert ég leit ég gat ekki séð að nokkur væri ekki í góðum fíling – allir með bros á vör. Það var svo magnað að sjá hvernig þetta gekk allt upp í þessum hóflega fíling sem við viljum ná fram, það voru allir í þessum takti; foreldrarnir sem voru í gæslunni og lögregluþjónarnir sem gengu um spjölluðu við fólk. Þetta er svo innilega tónninn sem við sem stöndum að hátíðinni viljum hafa, það skemmtu sér allir fallega saman og engir að setja sig í stellingar fyrir neitt annað en vinalegheit. Ég vona að við töpum aldrei þessari einkennisstemningu hátíðarinnar.“

Það hefur talsvert vatn runnið til sjávar síðan hátíðin var fyrst haldin árið 2004, en hún hefur þó allar götu síðan verið rómuð fyrir einstaka stemningu og keppast tónlistarmenn við að komast að í dagskránni sem ávallt hefur einkennst af fjölbreytileika, eða eins og hátíðarhaldarar segja þá fá þar allir eitthvað, enginn ekkert og einn fær ekki allt. Mikil reynsla hefur safnast saman hjá öllum þeim sem að hátíðinni koma og má segja að þar virki nú allt sem smurð vél:

„Ég segi það fullum hnefa að við vorum algjörir kjúklingar þegar við byrjuðum fyrir 14 árum síðan, en nú er hér að finna landsliðið í rokkhátíðum. Þetta er hátíð samfélagsins, því maður gerir ekki rassgat einn og það er allt samfélagið á Ísafirði að halda þessa hátíð og allir koma að hátíðinni með einhverjum hætti og það er það sem gerir hátíðina svona sérstaka. Núna erum við orðin sjóuð í þessu og fyrir það er maður svo þakklátur og stoltur af því. Ég hef náttúrulega ekki verið rokkstjóri lengi, þó ég hafi komið að hátíðinni öll þessi ár og núna fyrst sé ég hvað þetta er magnað. Ég þarf bara að mæta Einari í Efnalauginni eða Lauga á kranabílnum og áður en ég segi eitthvað þá vita þeir nákvæmlega hvað þeir eru að fara að gera. Það eru allir með puttana á púlsinum. Svo þetta er bara eintóm gleði.“

Hvað mannfjölda á hátíðinni í ár áhrærir segir Kristján að trú manna sé að hátíðin hafi enn eina ferðina toppað sig og það sem hafi verið sérstakt gleðiefni var hversu margir voru í skemmunni öllum stundum. Stuðið var öllum stundum samt við sig og ætlaði allt um koll að keyra er rapparinn MC Gauti steig á svið um miðbik laugardagskvöldsins: „Það kom einn afinn til mín og þakkaði fyrir góða hátíð og sagðist hann ekkert hafa litist á þennan Emmsjé Gauta og orðbragðið sem hann notaði, en afabarnið krafði hann um að vera með sér á staðnum á meðan á atriðinu stóð og sem hann sá ekki eftir og varð þar og þá að eldheitum aðdáanda rapparans.“

En voru einhver vandræði? „Þetta gekk ótrúlega smurt og áreynslulaust. Ég var alltaf að bíða eftir símtali í rauða símann en ekkert gerðist og ég fullyrði að á Aldrei fór ég suður fáum við bestu gestina. Tónlistarfólkið sem kom og spilaði var alveg stúmm yfir hversu frábært þetta var. Það er líka svo gaman hvað það er alltaf mikill fjölskylduhátíðarbragur ríkjandi og frábært að hafa alla þessa krakka á svæðinu. Ég get ekki sagt annað en við séum himinlifandi með hvernig til tókst.“ Svarar Kristján Freyr að lokum.

Ljósmyndarinn Ásgeir Helgi Þrastarson var á staðnum og fangaði stemninguna.

annska@bb.is

DEILA