Harðverjar deildarmeistarar

Fjórði flokkur Harðar í handboltanum gerði sér lítið fyrir og varð deildarmeistari á sumardaginn fyrsta með sigri á HK. Þeir höfðu áður lagt Hauka, Stjörnuna, Gróttu og Selfoss að velli til að ná þessum fyrsta titli í safnið. Keppnin var reyndar gríðarlega jöfn í allan vetur þar sem flest lið unnu og töpuðu á víxl en fyrir nokkru varð ljóst að með sigri í sínum síðasta leik á vertíðinni myndu Harðardrengirnir verða deildarmeistarar. Þeir voru því spenntir fyrir leik og á fyrstu mínútum hans en sigu síðan jafnt og þétt framúr og lönduðu góðum sigri, 22-16. Til að kóróna góðan árangur fengu strákarnir í 5. flokki að spreyta sig í leiknum og stóðu þeir sig allir með prýði. Var ekki að sjá að þar væru yngri strákar á ferð.

Harðarmenn fengu meistarabikarinn afhentan að loknum leik og tóku vel á því í fagnaðarlátunum. Með sigrinum enduðu þeir einu stigi fyrir ofan Selfoss með 40 mörk í plús sem var langbesta markahlutfall deildarinnar.

Á myndinni eru strákarnir með þjálfara sínum Grétari Eiríkssyni sem er, því miður, að láta af störfum eftir frábært starf hér fyrir vestan.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!