Tekið að krauma í Suðupottinum

Hildur ræðir við áhugasama gesti í opnuninni á laugardag. Mynd: Vaida Bražiūnaitė

Suðupottur sjálfbærra hugmynda er verkefni sem nú er í fullum gangi í Skóbúðinni á Ísafirði. Gestir og gangandi geta rekið inn nefið hvenær sem er á opnunartíma Suðupottsins, þar sem sjálfboðaliðar sem áhugasamir eru um sjálfbæran lífsstíl og umhverfisvernd í verki standa vaktina. Þar má skoða það sem er í gangi eða jafnvel bæta við eigin framlagi. Opnunardagur var á laugardag og létu margir sjá sig til að ljá verkefninu lið. Í Skóbúðinni er búið að koma fyrir allra handa listum þar sem gestir geta skráð hvað verið er að gera undir formerkjum sjálfbærni í fjölda málaflokka sem snúa að bæði að heimilinu og samfélaginu í heild, t.d. í sorpmálum og orkumálum. Gestir geta bæði skráð það sem þeir gera sjálfir sem og verkefni á annarra vegum sem hafa tekist vel til.

Hildur Dagbjört Arnardóttir er forsprakki verkefnisins og segir hún það mikilvægt að vekja fólk til vitundar um umhverfismál og eigin ábyrgð í þeim efnum. Hún segir þó það vera mikilvægt að temja sér umburðarlyndi í garð fólks sem fetar sig eftir stundum torförnum slóðum í átt að sjálfbærri lífsstíl og það sé eðlilegt í nútímasamfélagi að fólk velji að taka ekki allar barátturnar í einu heldur velji sér flokka sem það telur sig með góðu móti geta fylgt, sumir aðhyllist bíllausum lífsstíl, sumir taki sorpmálin föstum tökum, aðrir taki á matarsóun og neysluvitund og enn aðrir hugi að því að fá sem flest úr héraði svo einhver dæmi séu tekin. Hildur segir að fólk skammist sín stundum fyrir að vera ekki fullkomlega búið að ná tökunum í mörgum flokkum, en hún segir enga ástæðu til þess:

Frá opnun Suðupottsins á laugardaginn. Mynd: Vaida Bražiūnaitė

„Fyrst er hugsunin, við erum hugsandi áður en við erum gerandi. Suðupotturinn er einmitt staður þar sem þeir sem eru að spá og spekúlera hver í sínu horni geta komið saman og rætt sín hugðarefni, eða vangaveltur – og þá fengið hugmyndir og lausnir hjá öðrum.“

Í Suðupottinum eru teknar að krauma allra handa hugmyndir um hvernig fólk getur bætt við umhverfisvernd í verki, eins og með þátttökuverkefni í taupokagerð, kortlagningu afurða sem framleiddar eru á svæðinu, ásamt því sem ýmsir viðburðir eru í burðarliðnum, bíókvöld, kynning á sorpflokkun og fleira slíkt. Hildur Dagbjört segir að þó að hún hafi komið verkefninu af stað sjái hún fyrir sér að boltanum hafi verið varpað áfram og nú taki þátttakendur hann áfram og spreyti sig á eigin verkefnum í anda málefnisins.

Með Suðupottinum er einnig hugsað að gestir geti sest niður með kaffibolla, skipulagt eigin verkefni, sjálfir eða með öðrum, af hvaða stærðargráðu sem er – í sínu persónulega lífi eða eða fyrir samfélagið. Suðupotturinn er opinn mánudags- fimmtudagskvöld frá klukkan 20-22 og á laugardögum frá klukkan 13-15. Hann er til húsa í Skóbúðinni sem stendur við Hafnarstræti á Ísafirði og áður hýsti Skóbúð Leós.

annska@bb.is

DEILA