Steinunn sýnir Gleðina sem gjöf í Gerðubergi

Steinunn við tvær myndanna

Steinunn Matthíasdóttir opnar á laugardag ljósmyndasýninguna Gleðin sem gjöf í menningarhúsinu Gerðubergi, þar sem sýnd verða glaðleg portrett af eldri borgurum. Sýningunni er ætlað að draga athygli að virðingu fyrir þeim sem eldri eru og lífsgæðum þeirra, mikilvægi þess að finna gleðina sama hvernig lífið leikur okkur og vekja fólk til umhugsunar um hvernig við getum öll átt þátt í að veita gleði. Gleðin sem gjöf er hluti af Inside Out Project, sem gert er út frá New York af franska listamanninum JR í samvinnu við Ted Prize verðlaunin. Markmið verkefnisins er að vekja athygli á völdum málstað með hjálp portrettljósmynda hvaðanæva að úr heiminum. Inside Out project Steinunnar var framkvæmt í Búðardal sumarið 2016 þar sem risamyndir af 64 eldri borgurum voru límdar á húsveggi við þjóðveginn. Einnig var 14 mynda úrtak sett upp við kirkjutröppur Akureyrarkirkju sem hluti af Listasumri og í nóvember síðastliðnum voru myndirnar til sýnis í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri.

Steinunn er fædd á Ísafirði 1976 og alir þar upp, móðir hennar er Björk Gunnarsdóttir frá Bolungavík og faðir hennar Ísfirðingurinn Matthías Zóphanías Kristinn Kristinsson. Hún er kennari að mennt en er sjálflærð í ljósmyndun. Steinunn býr ásamt eiginmanni og börnum í Búðardal þar sem hún starfar í fjölskyldufyrirtæki þeirra hjóna auk þess að stunda ljósmyndun og taka að sér verkefni sem fréttaritari fyrir Skessuhorn. Í heimi ljósmyndunar heillar fjölbreytileikinn Steinunni en hún hefur þó aðallega einbeitt sér að því að mynda fólk ásamt því að vinna með landslag. Sýningin stendur til 14.maí.

annska@bb.is

DEILA