Óstöðug snjóalög á norðanverðum Vestfjörðum

Snjóflóð í Önundarfirði.

Snjóalög í fjöllum í nágrenni Ísafjarðar eru nú mjög óstöðug. Ekki er mikill snjór á svæðinu, en til fjalla er nýr snjór ofan á gömlum, hörðum snjó og neðarlega í nýja snjónum er veikleiki sem gerir það að verkum að fólk á ferð um brattar, snævi þaktar hlíðar getur sett af stað snjóflóð. Búast má við því að veikleikinn viðhaldist í köldu, björtu veðri næstu daga og því er þeim tilmælum beint til fólks á ferð um fjalllendi (t.d. fjallaskíðafólk og vélsleðamenn) að fara að öllu með gát og forðast brattar brekkur þar sem nýi snjórinn hefur safnast saman. Ekki er búist við stórum flóðum, en þó nægjanlega stórum til að skapa hættu fyrir fjallafólk. Tvö flóð fóru af stað af mannavöldum í gær en engin slys urðu á fólki. Margir hafa tilkynnt um „vúmp“ hljóð í snjóþekjunni, sem er merki um veikleika.

Þetta kemur fram á vefsíðu Veðurstofu Íslands í dag

bryndis@bb.is

 

DEILA