Mesti niðurskurðurinn á Vestfjörðum

Dynjandisheiði.

Jón Gunnarsson samgönguráðherra hefur slegið af vegagerð í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði. Samkvæmt samgönguáætlun var ráðgert á þessu ári að setja 1.200 milljónir kr. í vegagerði í Gufudalssveit og 400 milljónir kr. í Dynjandisheiði. Samgönguáætlun sem Alþingi samþykkti þann 12. október, rétt fyrir þingkosningar, var tveimur mánuðum síðar orðin marklaus, með samþykkt fjárlaga. Jón Gunnarsson, ráðherra samgöngumála, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að það muni tæpum tíu milljörðum króna. Þurft hefði 14 milljarða á fjárlögum til að fjármagna samgönguáætlun en um 4,5 milljarðar hefðu komið í fjárlagafrumvarpi til nýrra framkvæmda.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, bendir á á Facebooksíðu sinni að Jón Gunnarsson sjálfur var einn þeirra þingmanna sem samþykktu samgönguáætlun fyrir kosningar og fjarlög eftir kosningar þar sem samgönguáætlun var verulega skorin niður. Meðal annars átti að slá af framkvæmdir við Dýrafjarðargöng á síðustu stundu þegar örfáar vikur voru í opnun tilboða en með miklum þrýstingi tókst að snúa ofan af þeirri ákvörðun og gröftur Dýrafjarðarganga hefst í ár.

Framkvæmdir í Gufudalssveit (Teigsskógur) hafa dregist árum saman vegna deilna um vegastæðið. Vegagerðin er nú með framkvæmdina í umhverfismati í annað sinn og er álit Skipulagsstofnunar væntanlegt á næstu vikum.

smari@bb.is

DEILA