Lentu í snjóflóði í Botnsdal

Flóðið sem féll í Botnsdal í gær var nokkrir tugir að breidd. Mynd: Rúnar Óli Karlsson.

Fjórir fjallaskíðamenn lentu í snjóflóði í Botnsdal á áttunda tímanum í gærkvöldi. Þrír mannanna lentu í flóðinu sem var tugir metra á breidd, en sá fjórði náði að skíða niður á undan flóðinu. Mennirnir þrír bárust niður hlíðina með flóðinu mislanga vegu, en enginn lenti undir flóðinu að öllu. Einn mannanna slasaðist á fæti og þurfti hann aðstoð við að komast úr flóðinu og var fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði í framhaldinu þar sem hann gisti í nótt. Flóðið varð norðanmegin í dalnum í 350-400m hæð rétt ofan við gangnamunna Vestfjarðaganga, en mennirnir sem eru allir vanir fjallaskíðamenn voru að ljúka stuttri skíðaferð þegar að flóðið kom.

Flóðið sem féll í Botnsdal í gær var nokkrir tugir að breidd. Mynd: Rúnar Óli Karlsson.

Rúnar Óli Karlsson er einn þeirra sem sem þarna var á ferð og segir hann flóðið hafa verið þurrt flekaflóð, talsvert breitt, en þunnt: „Svona flóð fara hratt og það þarf ekki mikið til að kippa fótunum undan mönnum. Það brotnaði fyrir ofan okkur á tveimur stöðum.“

Gott veður var er ferðin hófst en á þeim tíma sem flóðið féll hafði sól gengið til viðar og skyggni lítið. Rúnar Óli segir að þeir hafi gert mistök, þar sem þeir fóru niður í talsverðum bratta, en segir ólíklegt að flóð hefði orðið hefðu þeir valið að skíða niður innar í dalnum í minni halla. Hann segir þá hafa vanmetið aðstæður. Þeim hafi verið kunnugt um veikleika í Kistufelli sem er ofan Skutulsfjarðar eftir að gryfja var tekin þar á föstudag af starfsmönnum Snjóflóðasetursins, en þeir hafi ekki endilega talið að sama ætti við í Súgandafirði.

„Við skíðum mikið þarna og kannski er maður orðinn full heimavanur, en ég hef sjaldan séð náttúrulegt flóð þarna á þessum stað þegar við höfum verið að skíða, þó þetta sé mjög þekktur snjóflóðastaður. Við gerðum klárlega mistök og þetta fer í reynslubankann.“ Segir Rúnar Óli sem er flestum hnútum kunnugur í fjallaskíðamennsku og segir hann ekkert hafa bent til þess að flóð gæti fallið er þeir gengu upp fjallið. Mennirnir voru allir vel búnir og með snjóflóðaýlur á sér. Aðspurður um hvort skapa þurfi meira aðhald utan um umferð fólks til fjalla að vetrarlagi svarar hann að upplýsingagjöf til ferðamanna sé ábótavant hér á landi, en fjallamennska, þá aðallega fjallaskíðaiðkun hefur orðið vinsælli með hverju árinu sem líður. Rúnar Óli segir upplýsingargjöf þó hafa batnað mjög mikið á síðustu árum með snjóflóðaspá Veðurstofunnar: „En auðvitað ferðast maður í fjalllendi á eigin ábyrgð og þarf að taka mið af aðstæðum hverju sinni.“

annska@bb.is

DEILA