Leita að 6.107 leikföngum

Á Stóra sviði Þjóðleikhússins, í álfahöllinni miðri, sviðsetur Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri og samverkafólk hans þætti úr sögu íslenskrar leiklistar í leikritinu Álfahöllin sem frumsýnt verður þann 8.apríl. Nú er unnið að því hörðum höndum að fullkomna verkið áður en gestir setjast á bekki hins virðulega húss og bera leiksýninguna augum. Aðstandendur leita nú logandi ljósi að hinum ýmsu leikfangafígúrum til að nota sem hluta af heimi Álfahallarinnar og skal tala þeirra vera 6.107 sem er táknrænt fyrir þau börn sem líða skort á Íslandi um þessar mundir, samkvæmt rannsóknarskýrslu Unicef.

6.107 bangsar, brúður, playmokallar og þess háttar fígúrur óskast og eru án vafa margar slíkar að finna geymslum landsins, þar sem margt dótið endar dagana. Nú getur dótið gengið í gegnum endurnýjun lífdaga, fyrst með frægð á Stóra sviði Þjóðleikhússins, en það sem meira er, er sýningum Álfahallarinnar lýkur verður séð til þess að dótið fái heimili þar sem þess er þörf.

Rauði krossinn á Vestfjörðum býður þeim sem vilja ánafna dóti í þetta verkefni að koma með það á svæðisskrifstofuna sem er í Vestrahúsinu við Suðurgötu 12 á Ísafirði og verður þá séð til þess að það rati í Þjóðleikhúsið og í framhaldi af því aftur í dótakassa barna. Koma má með dótið í dag og á morgun á skrifstofutíma. Fyrir þá sem eru staddir sunnan heiða má koma með leikföngin í miðasölu Þjóðleikhússins á milli kl. 10 og 18 virka daga fram til mánudagsins 3. apríl.

annska@bb.is

DEILA