Leið Skipulagsstofnunar kemur verst út úr umferðaröryggismati

     

    Vegagerðin hefur sent frá sér ítarlega frétt um gerð Vestfjarðavegar um Gufudalssveit, en hún telur svokallaða leið Þ-H sem sker langan og mjóan og ósnortinn landsnámsskóginn við norðurströnd Þorskafjarðar eftir honum endilöngum vera bestu leiðina. Í áliti Skipulagsstofnunar á mati á umhverfisáhrifum er sú leið metin lökust og stofnunin mælir frekar með leið D2 en í henni felst jarðagangagerð undir Hjallaháls og nýr vegur yfir Ódrjúgsháls.

    Alls voru fimm leiðir bornar saman í umhverfismatinu og uppfylla þær allar skilyrði góðrar veghönnunar og eru allar mun öruggari en núverandi vegur.

    Í skýrslu um umferðaröryggismat Vestfjarðavegar kemur leið D2 verr út en hinar leiðirnar.

    Kaflar leiðar D2 eru í miklum bratta sem eru yfir viðmiðunarreglum og sniðhalli einnig. Mesti halli á leið D2 er 8% á 500 m kafla. Alls eru um 2300 m með yfir 7% halla. Í veghönnunarreglum kemur fram að vegur með 90 km/klst hámarkshraða megi hafa 7% langhalla. Veglínan fer mest upp í 168 m hæð. Auk þess er hún um 2 km lengri en hinar leiðirnar.

    Í frétt Vegagerðarinnar segir að í fræðiritum um veghönnun komi þráfaldlega fram að rétt sé að lágmarka langhalla vegar eins og kostur er. Þetta skal gert með hliðsjón af umferðaröryggi, kostnaði umferðarinnar og kostnaði vegna viðhalds vegarins, einnig með hliðsjón af orkunýtingu, lágmörkun mengunar o.fl. þátta. Á  hinn bóginn, til að halda jarðraski og framkvæmdakostnaði í lágmarki, ber að velja langhalla þannig að vegurinn falli að landslaginu.

    Rannsóknir á umferðarslysum sýna að 6,5 % langhalli er nokkurs konar vendipunktur og meiri langhalli hefur í för með sér mjög aukna slysatíðni. Þannig vex slysahætta um 25 % frá 6,5 % langhalla í 8 % og um önnur 25 % frá 8 % í 9 % langhalla. Slysarannsóknir á tveggja akreina vegum í dreifbýli leiða í ljós að langhalli innan við 6,5 % hefur lítil áhrif á slysatíðnina en langshalli umfram 6,5 % veldur snöggri og sívaxandi aukningu á slysatíðninni.

    Hallinn á leið D2 er mestur 7,9 % í sunnanverðum Ódrjúgshálsi en 8,0 % að vestan. Ódrjúgsháls er snjóléttur en hálka í svona langhalla er alltaf varhugaverð svo ekki sé talað um komi hún ökumönnum að óvörum.

    Smári

     

    DEILA