Krossinn í Engidal lýsir að nýju

Krossinn er orðinn hin mesta prýði að nýju.

Fyrir síðustu jól glöddust margir á Ísafirði er þeir sáu að ljós var komið á krossinn við kirkjugarðinn í Réttarholt í Engidal að nýju en hann hafði verið ljóslaus um árabil. Það var Lionsklúbbur Ísafjarðar sem sá til þess að krossinn fengi tilhlýðilegar fegrunaraðgerðir og lagfæringar og fengu félagar klúbbsins einvalalið með sér í verkið, þar sem allir gáfu vinnu sína.

Lionsklúbbur Ísafjarðar gaf Sóknarnefnd Ísafjarðarkirkju krossinn árið 1984 og ári síðar var krossinum komið fyrir í Engidal að tillögu nefndar. Skipastál var pantað til smíðanna og sá Friðgeir Hrólfsson Lionsmaður i Vélsmiðju Ísafjarðar um verkið. Þá komu gott sem allir starfandi félagar klúbbsins að verkinu sem vakti ánægju bæjarbúa að sögn Bjarndísar Friðriksdóttur formanns Lionsklúbbsins. Eftir að hafa prýtt garðinn í nokkur ár fór að bera á bilun í ljósabúnaði, sem á endanum gaf sig.

Bjarndís segir Lionsfólk hafa rætt sín á milli að þyrfti að laga krossinn og bæjarbúar hafi haft orð á því að ljós vantaði á krossinn. Í haust var svo drifið í að taka krossinn niður og var farið með hann í sandblástur í Vélsmiðjunni Mjölni í Bolungarvík, svo lögðu Sævar og starfsfólk Pólsins í hann nýjan ljósabúnað sem kom frá fyrirtækinu Vestkraft og þá var plast yfir lýsinguna útbúið í Vélsmiðjunni  Þristi. Lionsfélagar máluðu síðan krossinn og settu hann aftur upp á sinn stað í Engidal á aðventunni „Lionsklúbbur Ísafjarðar vill koma hjartans einlægustu þökkum fyrir fallegar gjafir til þeirra sem komu að verkinu sem bæjarbúar kunna svo sannarlega að meta. Það var sannkölluð jólagleði er það kom ljós að nýju,“ Segir Bjarndís.

annska@bb.is

DEILA