Kostnaður heimila vegna raforkukaupa lítið breyst

Höfuðstöðvar Orkubús Vestfjarða á Ísafirði.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur látið vinna skýrslu um þróun kostnaðar heimila við raforkuöflun, frá gildistöku raforkulaga 2005 til 2017. Sérstaklega er þar horft til heimila sem búa við rafhitun. Í skýrslunni er skoðuð þróun tekna og kostnaðar notenda fyrir kerfið í heild sinni. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru að heildarkostnaður meðal heimilis við raforkuöflun, á verðlagi við lok árs 2016, hefur breyst tiltölulega lítið frá 2005, en hann hefur þó ætíð verið meiri í dreifbýli en þéttbýli. Ef skoðaður er hver kostnaðarþáttur fyrir sig kemur í ljós að kostnaður notanda við orkukaup fór heldur minnkandi í byrjun tímabilsins en hefur verið að vaxa á undanförnum árum. Á móti kemur að kostnaður notanda vegna flutnings og dreifingar hefur farið lækkandi á allra síðustu árum vegna aukinna niðurgreiðslna og dreifbýlisframlags.

 

Sé horft til viðskiptavina Orkubús Vestfjarða í dreifbýli hefur kostnaður lítið breyst á þessu tímabili en hefur sveiflast frá um 250 upp í um 330 þús. kr. á ári, á föstu verðlagi. Kostnaðurinn var mestur á árunum 2010 til 2014 en nú er hann svipaður og við upphaf tímabilsins. Frá 2005 til 2017 hafa niðurgreiðslur og verðjöfnun aukist um 20% fyrir þennan notanda en árlegur kostnaður notandans er að mestu óbreyttur en tekjur veitufyrirtækjanna hafa aukist um 10% af þessum notanda. Niðurgreiðslur og verðjöfnun hafa að undanförnu verið um tvöfalt meiri en þær voru minnstar rétt fyrir mitt tímabilið.

 

Kostnaður notanda í þéttbýli á veitusvæði Orkubús Vestfjarða hefur breyst lítið en hann er nokkuð lægri en fyrir notandann í dreifibýlinu. Að meðaltali er kostnaður notandans í dreifbýlinu um 40 þús. kr. hærri á ári og mesti munurinn er rúmlega 60 þúsund kr. á ári á þessu tímabili en nú er munurinn 27 þúsund kr. á ári (janúar 2017). Niðurgreiðslurnar hafa aukist um 7% frá upphafi tímabilsins til 2017 og tekjur veitufyrirtækjanna hafa aukist um 6% á föstu verðlagi. Eins og í dreifbýlinu voru tekjurnar minnstar rétt fyrir mitt tímabilið (2009).

 

 

DEILA