Kanna hvar knattspyrnuhús gæti risið

Teikning af knattspyrnuhúsi á Torfnesi úr skýrslu Vestra um knattspyrnuhús á Ísafirði.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur óskað eftir heimild bæjarstjórnar til að hefja skipulagsvinnu á Torfnesi á Ísafirði. Að sögn Sigurðar Jóns Hreinssonar, formanns nefndarinnar, verður tilgangurinn með skipulagsvinnunni fyrst og fremst að kanna hvar hugsanlegt knattspyrnuhús gæti risið. Meirihlutinn í bæjarstjórn hefur ekki talað fyrir því að reisa yfirbyggðan knattspyrnuhús, en Sigurður segir að Í-listinn sé til í að hlusta á öll góð rök. „Íþróttahreyfingin hefur verið nokkuð skýr í vilja sínum að reisa knattspyrnuhús og ef menn færa góð rök fyrir sínu máli, þá er ekki búið loka neinum dyrum,“ segir Sigurður.

Sigurður segir að á fjárhagsáætlun þessa árs sé gert ráð fyrir 70 milljónum kr. í nýjan aðalvöll og öðru eins á næsta ári og það sé brýnt að fyrir liggi hver stefnan verður til framtíðar á Torfnesi. Fyrr á kjörtímabilinu var gert ráð fyrir fé til að fara í skipulagsvinnu á Torfnesinu, en Í-listinn skar það niður og kaus frekar að standa fyrir hugmyndasamkeppni um breytingar á Sundhöll Ísafjarðar. Þrátt fyrir að skipulagsvinnan á Torfnesi sé í tímapressu hvað varðar framkvæmdir við nýjan aðalvöll, segir Sigurður að það hafi ekki verið mistök að hætta við skipulagsvinnu í Torfnesi og einblína á Sundhöllina. „Það hefur komið út úr hugmyndasamkeppninni að það er hægt að færa Sundhöllina í nútímahorf og gera hana aðlaðandi og þá finnst mér að það þurfi ekki endilega að gera ráð fyrir nýrri sundlaug í skipulagi á Torfnesi. Ég er ekki að segja að það verði niðurstaða skipulagsins, við munum vinna það með opnum huga, en það þurfti að svara þessari spurningu fyrst,“ segir Sigurður.

DEILA