Ísfirðingur í námunda við árásina í London

Kristinn Hermannsson

Ísfirðingurinn Kristinn Hermannsson, sem nú starfar sem lektor við háskólann í Glasgow, var staddur í breska þinghúsinu þegar árásin var gerð í nágrenni Westminster í London í gær. Í samtali við Vísi lýsir hann hvernig hann og hópur nemenda sem hann var með þar á ferð máttu bíða í fimm klukkustundir í þinghúsinu á meðan gengið var úr skugga um að öryggi þeirra væri ekki ógnað.

Kristinn og nemendahópurinn sem er í meistaranámi í menntun og stjórnsýslu voru að bíða eftir að fara á þingpallana í neðri deildinni, er þeim var sagt að þau gætu ekki farið neitt og áttu að bíða í nokkrar mínútur. Á meðan biðinni stóð birtust fréttir á sjónvarpsskjá í þinghúsinu um uppnám fyrir utan húsið. Í framhaldinu var þingfundi slitið og fóru þá að berast upplýsingar til þeirra um að árás hefði verið gerð.

Við tók um fimm klukkustunda bið. Í fyrstu biðu þau á þingpöllunum, í um klukkustund, en síðan var þeim smalað í sal í þinghúsinu þar sem þeim var sagt að halda kyrru fyrir. Hann segir þingstarfsfólkið hafa verið mjög faglegt og rólegt yfir fólki. Hugað var að þeim sem voru veikir fyrir og fólki gefið vatn á meðan biðinni stóð.

Hann segir biðina hafa verið bærilega og fólk hafi síður en svo óttast um öryggi sitt. „Ég held að margir hafi hugsað með sér að þetta væri örugglega öruggasti staðurinn í London í dag að vera þarna inni með allt þetta öryggisprógramm.“

Meira um dag Kristins og nemenda hans má lesa hér.

annska@bb.is

 

DEILA