Helmingur gjaldeyristekna frá ferðamönnum

Ferðaþjónustan dregur vagninn í auknum útflutningstekjum.

2,3 milljónir ferðamanna sækja Ísland heim á þessu ári, og fjölgar um 30% frá því í fyrra, gangi spá Íslandsbanka eftir. Bankinn spáir því að næstum helmingur af gjaldeyristekjum Íslands í ár, komi til vegna ferðamanna. Ferðaþjónusta verður sífellt fyrirferðarmeiri í hagkerfinu. Þannig keyptu íslensk bílaleigufyrirtæki 42% allra nýrra bíla á Íslandi í fyrra, fyrir um 30 milljarða króna.

Ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað ört undanfarin ár úr tæpri hálfri milljón árið 2010  í milljón 2014 og 1,8 milljónir í fyrra  2016. Fjöldi ferðamanna hefur þannig meira en þrefaldast á sex árum.

Í skýrslu Íslands banka um ferðaþjónustu, er því spáð að gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum verði um 560 milljarðar króna á þessu ári. Það eru 45% af gjaldeyristekjum Íslands. Ýmsar tölur koma fram í skýrslunni sem sýna hve umsvifamikil ferðaþjónusta er á Íslandi. Til að mynda keyptu bílaleigur fjörutíu og tvö prósent allra nýrra bíla í fyrra – ríflega 9000 bíla, fyrir um 30 milljarða króna. Þá telur Íslandsbanki að heildartekjur vegna útleigu íbúðarhúsnæðis á vefsíðunni AirBnb hafi numið 6,7 milljörðum króna í fyrra.

DEILA