Hagnýt þekking í sögulegu samhengi

Simon Brown

Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða á morgun verður umræðuefnið hagnýt þekking og gagnsemi hennar í sögulegu samhengi. Simon Brown, bandarískur doktorsnemi í sagnfræði við Kaliforníuháskólann í Berkeley, mun flytja erindi og flétta saman sagnfræði, guðfræði og heimspeki. Simon er gestkomandi á Ísafirði um þessar mundir en unnusta hans stundar meistaranám við haf- og strandsvæðastjórnun Háskólasetursins.

Í erindi sínu mun Simon fjalla um sögu hugtaksins „hagnýt þekking“ á nýöld á Englandi. Sagnfræðingar hafa talið hugtakið tilheyra vísindabyltingu 16. og 17. aldar þegar heimspekingar tóku að skrifa um og halda á lofti hugtakinu „hagnýt þekking“  sem væri sú þekking á náttúrunni sem sérfræðingar gætu nýtt sér til efnahagslegs ávinnings. Þessi skrif hafa orðið til þess að hugtakið hefur helst verið tengt læknavísindum, málmiðnaði, landbúnaðarvísindum og öðrum þeim sviðum sem í dag teljast til nátttúruvísinda.

Simon er á annarri skoðun og telur að hugtakið „hagnýt þekking“ sé eldra og megi frekar rekja til siðaskiptanna á Englandi. Í því samhengi merki hugtakið þekking einstaklingsins á kenningum Biblíunnar og hvernig sú þekking þvingar einstaklinginn til að haga sér í samræmi við kristileg siðalögmál. Ávinningurinn af slíkri þekkingu er ekki efnislegur, heldur frekar siðferðilegur og andlegur.

Simon Brown ólst upp í Pittsburgh í Pennsylvania fylki í Bandaríkjum og lauk BA gráðum í sagnfræði og heimspeki frá Háskólanum í Pittsburgh. Hann hóf doktorsnám í sagnfræði við Kaliforníuháskólann í Berkeley árið 2015 þar sem hann rannsakar sögu nýaldar á Englandi með sérstaka áherslu á trúarbrögð og guðfræði í Bretlandi á 17. og 18. öld.

Vísindaportið fer að vanda fram í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða frá 12.10-13.00 á föstudag. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir. Fyrirlesturinn að þessu sinni fer fram á ensku.

Smári

DEILA