Grásleppukarlar segja skilyrði til verðhækkunar

Grásleppukarlar eru ekki öfundsverðir þessa dagana. Vertíð að hefjast og aðeins tveir af væntanlegum kaupendum búnir að tilkynna hvað þeir hyggjast greiða fyrir grásleppuna, segir á vef Landssambands smábátaeigenda.

Á vef Landssambandsins (LS) kemur fram að á vertíðinni í fyrra var verð á grásleppu með því lægra sem þekkst hefur. Eins og nú biðu sjómenn eftir verði og tókst með eftirgangsmunum að knýja það fram. Vertíðin byrjaði með látum, mokafli víðast hvar. Kaupendur brugðust við með því að lækka verðið. Meðalverð á vertíðinni var 155 kr/kg, en þrátt fyrir að hæsta verð á verulegu magni hafi verið 188 kr/kg, greiddu framleiðendur kavíars enga uppbót.

LS segir að  þróun verðs á mörkuðum hafi ekki knúið fram fjórðungsverðlækkun milli ára, heldur aðstæður sem sjómenn búi við. Þeir hafi takmarkaðan fjölda daga til að stunda veiðar og eigi því erfitt með að hnika veiðunum. Mannahald væri ákveðið miðað við ákveðinn upphafsdag.  Að hefja veiðar þegar mest veiðivon.

LS segir að skilyrði til verðhækkunar séu fyrir hendi:

  • birgðir hjá kaupendum / framleiðendum kavíars eru undir lágmarki
  • verð í fyrra var of lágt sem sýndi sig í verðhækkun á kavíar
  • ekkert liggur fyrir um endanlegan fjölda veiðidaga
  • lítið hefur veiðst af grásleppu sem meðafla
  • veiði þarf að aukast um fimmtung á heimsvísu frá í fyrra til að viðhalda mörkuðum
  • litlar líkur á að Grænlendingar veiði meira en í fyrra
  • verðhækkun verður í Grænlandi

smari@bb.is

DEILA