Ferðamenn fjármagni uppbyggingu í vegakerfinu

Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Jón Gunnarsson samgönguráðherra telur að leita þurfi leiða til að ferðamenn taki þátt í uppbyggingu vegakerfisins með gjaldtöku. Hann sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær, að hann mæti á ríkisstjórnarfund í dag með betlistaf, en til að uppfylla fyrirheit samgönguáætlunar þarf 10 milljarða kr.

„Þannig að það blasir við mér að ef við ætlum í alvöru að takast á við þetta verkefni, ef við ætlum að stíga alvöru skref og fara inn í þetta á næstu árum svo um muni, þá þurfum við að horfa til annarra leiða,“ sagði Jón.

Verkefnið sem stjórnvöld standa frammi fyrir í samgöngumálum er risavaxið, en sextíu og fimm milljarða króna vantar í viðhald og uppbyggingu vegakerfisins á næstu árum.

Mikil reiði er víða um land eftir að samgönguráðherra skar niður framkvæmdir sem Alþingi hafi samþykkt í samgönguáætlun rétt fyrir kosningar í haust. Niðurskurðurinn kemur til vegna minna fjármagns til samgönguáætlunar í fjárlögum sem Alþingi samþykkti eftir kosningar.

DEILA