Einn blár strengur á Aldrei fór ég suður

Bubbi Morthens er meðal þeirra sem tónlistarmanna sem skartað hefur bláum streng og það munu tónlistarmenn á Rokkhátíð Alþýðunnar einnig gera.

Einn blár strengur er átaksverkefni til vitundarvakningar um kynferðislegt ofbeldi gegn drengjum. Verkefnið er leitt af kennurum og nemendum við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri og er það unnið í samstarfi við alþjóðleg samtök 1bluestring.org.  Nafn verkefnisins vísar til þess að erlendar rannsóknir sýna að einn af hverjum sex drengjum verða fyrir kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára aldur, og segir Ísfirðingurinn Sigrún Sigurðardóttir sem er ein helsta hvatamanneskjan að verkefninu, ekkert í okkar samfélagi sem benda til þess að eitthvað minna sé um það hér á landi.

„Einn blár strengur kom til Íslands í águst 2016. Ég var þá að leita mér að rannsóknum um kynferðislegt ofbeldi gegn drengjum vegna doktorsrannsóknar minnar og fann upplýsingar um verkefnið á netinu.“ Segir Sigrún sem starfar sem lektor við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri, hefur skrifað doktorsritgerð við Háskóla Íslands sem fjallar m.a. um reynslu karlmanna af kynferðislegu ofeldi í æsku og áhrif þess á heilsufar og líðan. Sigrún hafði áður skoðað sömu mál í reynsluheimi kvenna í meistararitgerð sinni og í kjölfarið fór hún af stað með heildræn meðferðarúrræði, Gæfusporin, sem einnig er hluti af doktorsverkefni hennar.

„15 ára sonur minn er mikill gítarleikari og honum fannst verkefnið mikil snilld og bað mig að panta fyrir sig einn streng. Ég sendi póst út og fékk strax svar frá Gary Foster í Ástralíu sem bauðst til að senda mér ýmsan varning tengdan verkefninu. Þar með fór boltinn að rúlla. Sonur minn fór svo með bláa strenginn í gítartíma hjá Magna Ásgeirs sem fannst þetta svo flott hugmynd að hann var til í að vera með og kynna verkefnið og fékk því bláan streng. Þá benti ég nemendum mínum í námskeiðinu Sálræn áföll og ofbeldi við HA á hvað væri hægt að gera frábæra hluti í tengslum við mjög svo erfitt viðfangsefni og bauð þeim jafnframt að gera eitthvað með það. Þannig hélt boltinn áfram að rúlla.

Ég var áfram í tölvupóstsamskiptum við Gary og sagði honum að mikill áhugi væri fyrir verkefninu hér á landi og var í framhaldinu ákveðið að hafa ráðstefnu í Háskólanum á Akureyri 20.maí þar sem fjallað verður um kynferðislegt ofbeldi gegn drengum. Þá verður einnig vinnusmiðja með karlmönnum sem þolendum kynferðisofbeldið þann 22.maí.“ Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna á heimasíðunni www.alltumofbeldi.is. og þá má einnig lesa um verkefnið á fésbókarsíðu þess.

Mikilvægt samstarf við tónlistarfólk

Margir tónlistarmenn hafa þegar lagt verkefninu lið með því að setja bláan streng í gítara sína og má þar nefna Bubba Morthens sem til að mynda spilaði með bláan streng á Þorláksmessutónleikum sínum í Hörpu og nú hefur rokkhátíðin Aldrei fór ég suður slegist í lið með átakinu:

„Það er mér því mjög kært að koma með einn bláan streing í minn heimabæ og hleypa þar af stað vitundarvakningu. Það er líka táknrænt fyrir mig því ég var búsett á Ísafirði þegar ég byrjaði að vinna rannsókn mína á karlmönnum sem þolendur kynferðislegs ofbeldis í æsku og tók fyrsta viðtalið þar fyrir sjö árum.“

Sigrún nefndi samstarf við AFÉS er hún hitti forsprakka hátíðarinnar Mugison, er hann hélt tónleika norðan heiða í haust. Tók hann vel í hugmyndina og það gerði einnig Kristján Freyr rokkstjóri í framhaldinu og mun Einn blár strengur vera á Aldrei fór ég suður og hafa tónlistarmenn tekið afar vel í það að leggja sín lóð á vogaskálar verkefnisins.

Sigrún Sigurðardóttir

„Það er mjög mikilvægt fyrir verkefnið að komast í samstarf við svo flotta rokkhátíð til að vekja athygli á þessum erfiðu málum sem kynferðislegt ofbeldi er, sérstaklega gegn drengjum. Með því að koma verkefninu á stað þar sem margt ungt fólk kemur saman náum við til fleiri, sérstaklega drengjanna og karlanna sem við viljum ná til. Kynferðislegt ofbeldi gegn drengjum og karlmönnum er mjög dulið því karlar segja síður frá en konur.“ Segir Sigrún og segir hún sem virðist fylgja þeim meiri skömm og sjálfsásökun: „Fordómar í samfélaginu og þeirra eigin gera það að verkum að þeir lifa oft í þrúgandi þögn. Þessi málaflokkur hefur einnig fengið frekar litla athygli hér á landi og meiri fókus verið á konur og því eru margir karlar þarna úti sem búa yfir þessu ljóta leyndarmáli sem litar allt þeirra líf og samskipti þeirra við vini, maka og börn sín.“

„Við erum mjög þakklát fyrir að komast í samstarf við Aldrei fór ég suður og sjáum þar möguleika að ná til fleiri einstaklinga en við gætum annars gert, tónlist er ein besta boðleiðin fyrir svona erfið mál og með þessu átaki vonumst við til þess að það verði hvatning fyrir karlmenn að leita sér hjálpar, í því felst frelsið og það er engin skömm af því.“ Segir Sigrún og bendir á að leita megi hjálpar víða:

„Stígamót kemur t.d. til Ísafjarðar og tekur á móti körlum jafnt sem konum, Aflið á Akureyri taka einnig á móti körlum jafnt sem konum og þar er opinn sími allan sólarhringinn og Drekaslóð í Reykjavík taka einnig á móti körlum jafnt sem konum. Hjálparsími Rauða krossins, 1717 er einnig opinn fyrir þolendur ofbeldis og Blátt áfram hefur nýlega stofnað stuðningshópa fyrir foreldrar barna sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.“

annska@bb.is

DEILA