Bolvísk og frönsk ungmenni öðlast vitund um eigið vistspor

Ungmennin í slagviðri í Holti

Í febrúarlok heimsóttu Bolungarvík ungmenni frá Lyon í Frakklandi á vegum Erasmus+ áætlunarinnar, sem sem er stærsta mennta- og æskulýðsáætlun í heiminum og mörgum hér á landi af góðu kunn. Er til að mynda tekið þátt í ungmennaskiptaverkefnum á þeirra vegum mátti lesa um eitt skemmtilegt slíkt verkefni á síðum Bæjarins besta í fyrra sem nemendur við Grunnskóla Bolungarvíkur tóku þátt í.

Franski hópurinn taldi 10 ungmenni á ferð með Bolvíkingnum Guðmundi Arngrímssyni og dvaldi sex daga í Bolungarvík þar sem þau hófu samstarf með 10. bekk grunnskólans. Þau fóru um víðan völl að kynnast svæðinu, heimsóttu meðal annars Holtsfjöru í slagviðri, skoðuðu Ósvör, skelltu sér á kaffihús á Ísafirði, fóru í sund á Suðureyri og urðu vitni að stórkostlegum dansi norðurljósanna. Einnig fengu þau að kynnast íslenskum hefðum líkt og að maska, og fengu þau til að mynda að smakka rjómabollur, plokkfisk og hákarl, svo fátt eitt sé nefnt og segir Guðmundur dvölina hafa verið mikla upplifun og mikinn lærdóm fyrir ungmennin.

Ungmennin á fyrsta vinnufundi í Einarshúsi í Bolungarvík

Guðmundur á fyrirtækið Cursus Iceland sem sérhæfir sig í alls kyns námskeiðum er lúta að sjálfbærni og meðhöndlun náttúru. Hann hefur talvert komið að ungmennaskiptaverkefnum áður, en þá í formi þess að þjálfa starfsmenn, en þetta er í fyrsta sinn sem hann er sjálfur með hóp á vegum áætlunarinnar sem hann segir gefandi og skemmtilegt verkefni. Það sem hópurinn vinnur að er að rannsaka sitt eigið vistspor og hvernig þau hafa áhrif í gegnum sína eigin neyslu og kauphegðun. Guðmundur segir verkefnið afar brýnt, það sé mikilvægt að ná til unga fólksins ef við viljum í raun sjá viðhorfs – og atferlisbreytingar í veröldinni og það í raun ákvarði hvernig okkur reiðir af yfir höfuð. Hann segir gífurlega mikilvægt að ungmennin öðlist vitund um eigið vistspor og hvernig við í sameiningu sköpum gríðarlega eftirspurn eftir drasli.

Guðmundur Arngrímsson leiddi hópinn. Mynd af Fésbókarsíðu Einarshússins.

Ungmennin vinna í fjórum hópum sem hver svo velur sér tiltekið verkefni eða sjónarhorn til umfjöllunar sem þau svo túlka í gegnum stuttmyndir og segist Guðmundur binda miklar vonir við að þær hafi áhrif á ungmenni víða og veki þau til aukinnar vitundar í þessum skilaboðum frá jafnöldrum: „Vonandi verður hugvekjan það öflug að hún verði boðberi nýrra neysluviðmiða og nýrrar hugmyndafræði til framtíðar. Stuttmynd sem færi víða er sterkt vopn og mikilvægt fyrir þau sem að verkefninu koma að koma skilaboðunum áfram, því það skiptir engu máli hversu merkilegt það er sem þú hefur að segja ef enginn heyrir það.“

Guðmundur gerir mikið af því að teikna upp og gera náttúruleiksvæði og segir hann þetta allt tengjast saman: „Það er gott að skoða hvernig maður hagar sér í náttúrunni og hvernig við sköpum merkingu í umhverfinu okkar. Fyrir framtíðina er mikilvægt að finna þessa tengingu hjá sem flestum, því það er ekki hægt að sýna hollustu ef fólki finnst það ekki vera hluti af umhverfinu.“

Hópurinn kemur aftur saman í júlí er íslensku ungmennin halda út til Frakklands þar sem þau skoða sig um í Lyon ásamt því að halda áfram að vinna að stuttmyndagerðinni.

annska@bb.is

DEILA