Bjóða til hljóðainnsetningar í ljósaskiptunum

Útsýnið frá Hnífsdalsvegi 10. Mynd: glamakim.is

Á fimmtudaginn kemur bjóða listakonurnar Ulla Juske og Ella Bertilsson gestum að upplifa hljóðinnsetninguna Órætt efni/Uncertain Matter á Ísafirði. Innsetningin fer fram í ljósaskiptunum í Króknum á heimili Kjartans Árnasonar arkitekts og fjölskyldu hans að Hnífsdalsvegi 10.

Órætt efni er frásagnarkennd hljóðinnsetning sem veltir því upp hvernig skynja má og skilgreina tíma. Í verkinu eru könnuð mörk staðreynda og skáldskapar þar sem skynjunin á tíma er skoruð á hólm sem og staðsetning okkar í alheiminum og framtíð okkar innan hans. Allt frá iðnbyltingu hefur fólk verið háð klukkum og tímavörslu. Við skiljum öll tíma af praktískum ástæðum, en upplifunin af honum getur einnig verið huglæg. Mínútur geta verið sem klukkustundir og mánuðir geta liðið svo hratt að hönd fær vart á fest.

Hljóðverkið byggir á fjölda viðtala við áhuga-stjörnufræðinga, stjarneðlisfræðinga og grasafræðinga frá Reykjavík og nágrenni. Sagan sem er sögð gefur innsýn í hugarheim viðmælendanna. Verkið var unnið er listamennirnir dvöldu um þriggja mánaða skeið í listavinnustofum Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM).

Órætt efni er samstarfsverkefni þeirra Ellu og Ullu. Í samstarfi sínu leitast þær við að vera með frásagnarmiðaða túlkun sem lýsir huglægri reynslu af tíma í tengslum við ákveðin samfélög, stað eða umhverfi. Samtöl við fólk sem tengist viðfangsefni þeirra hverju sinni eru þar mikilvægasti hlekkurinn sem setur stefnuna við þróun hvers verks.

Viðburðurinn, sem hefst klukkan 18, er skipulagður af Gallerí Úthverfu í samvinnu við Kjartan Árnason arkitekt og fjölskyldu sem opna heimili sitt fyrir kynninguna á verkinu sem tekur 22 mínútur í flutningi. Listakonurnar verða á staðnum og boðið verður upp á léttar veitingar og spjall á eftir.

annska@bb.is

DEILA