Bikarleikur á laugardaginn

Karlalið Vestra er komið í átta liða úrslit í Kjörísbikarnum í blaki og fær úrvalsdeildarliðið Þrótt R/Fylki í heimsókn. Leikurinn verður á Torfnesi kl. 15:30 laugardaginn 4. mars.

Eftir því sem elstu menn muna er þetta í fyrsta sinn sem Vestri (áður Skellur) tekur þátt í bikarmóti í blaki og undirbýr liðið sig af kappi fyrir leikinn á laugardaginn.  Á liðinni helgi fékk Vestri HKb í heimsókn í Íslandsmótinu og lagði það sannfærandi í tveimur leikjum og hlýtur það vera gott nesti fyrir þennan leik. Andstæðingurinn í þessum leik er Þróttur R/Fylkir, þeir spila í úrvalsdeild í Ísalandsmótinu en hafa aðeins unnið tvo leiki og verma þar neðsta sæti, okkar menn spila í 1. deild og tróna þar á toppnum með 8 stiga forskot á næsta lið og einn leik til góða.

Karlalið Vestra í blaki hefur verið á mikilli siglingu í vetur undir stjórn makedónska þjálfarans Tihomir Paunovski og virðist vera til alls vís.

Þéttsetnir bekkir á heimvígstöðvum eru alltaf styrkjandi og því upplagt að skella sér á leik og hverja okkar menn. Þetta er söguleg stund.

bryndis@bb.is

DEILA