Bærinn fær rafmagnsbíl

Jónas Guðmundsson, formaður Samgöngufélagsins, afhenti bænum þjónustumerki sem vísar á rafhleðslustöðina.

Ísafjarðarbær hefur fengið afhentan rafbíl sem tekinn er á langtímaleigu frá Bílaleigu Akureyrar. Bíllinn leysir af hólmi þann bílaleigubíl sem bærinn hefur haft á leigu undanfarin ár. Nýi rafbíllinn er hagstæðari á öllum mögulegum mælikvörðum; í leigu, eyðslu og síðast en ekki síst fyrir umhverfið. Bíllinn verður nær eingöngu notaður í akstur á norðanverðum Vestfjörðum og vonir standa til að hann henti vel til þeirra verkefna. Ísafjarðarbær hefur hlotið silfurvottun frá umhverfisvottunarsamtökunum EarthCheck og er notkun rafbílsins skref í átt að umhverfisvænna sveitarfélagi.

Jónas Guðmundsson, formaður Samgöngufélagsins, afhenti bænum þjónustumerki sem vísar á rafhleðslustöðina.

Ísafjarðarbær hefur jafnframt sett upp hleðslustöð frá Orkusölunni í samstarfi við húsfélag Stjórnsýsluhússins á Ísafirði. Enn fremur hefur Samgöngufélagið fært Stjórnsýsluhúsinu að gjöf þjónustumerki sem vísar á rafhleðslustöðina, enda mikilvægt fyrir alla að vita hvar stöðin er þar sem hún verður opin almenningi.

smari@bb.is

DEILA