Auðbjörg Erna sigraði stóru upplestrarkeppnina

Frá vinstri: Lena Rut, Íris Embla og Auðbjörg Erna. Mynd af heimasíðu GÍ.

Í gær var lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar á norðanverðum Vestfjörðum haldin í Hömrum, sal Tónlistarskólans á Ísafirði. Þar stigu tólf nemendur úr 7. bekk á stokk og lásu sögubrot úr Bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason og ljóð eftir Steinunni Sigurðardóttur, auk þess sem allir lásu ljóð að eigin vali. Mikil gæði voru í upplestri krakkanna sem færði vanda á hendur dómaranna, sem að þessu sinni voru þau Baldur Sigurðsson, Anna Þ. Ingólfsdóttir, Heiðrún Tryggvadóttir og Kristín Ósk Jónasdóttir.

Það var Auðbjörg Erna Ómarsdóttir frá Grunnskólanum á Þingeyri sem bar sigur úr býtum, Íris Embla Stefánsdóttir frá Grunnskólanum í Bolungarvík hafnaði í öðru sæti og Lena Rut Ásgeirsdóttir frá Grunnskólanum á Ísafirði í því þriðja.

Guðrún Birgisdóttir skóla- og sérkennslufulltrúi Ísafjarðarbæjar hélt utan um dagskrána og Rósbjörg Edda Rúnarsdóttir, sem hafnaði í 2. sæti keppninnar í fyrra, las inngangstexta. Þá lék skólalúðrasveit Tónlistarskólans nokkur lög í upphafi og sá um að koma öllum í rétta gírinn. Frá þessu var greint á heimasíðu Grunnskólans á Ísafirði.

Stóra upplestrarkeppnin er árviss viðburður í skólastarfinu hjá 7.bekkingum um allt land. Markmið keppninnar er að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði.

DEILA