Ætla að vinna málið hratt

Hreinn Haraldsson vegamálsstjóri í Teigsskógi með Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þáverandi samgönguráðherra.

Eins og greint hefur verið frá ætlar Vegagerðin að halda sínu striki varðandi vegaframkvæmdir í Gufudalssveit og stefnir að því að umsókn um framkvæmdaleyfi vegar um Teigsskóg verði komin inn á borð sveitarstjórnar Reykhólahrepps í aprílmánuði. Í gær var birt álit Skipulagsstofnunar á framkvæmdunum þar sem stofnunin mælti með því að fara aðra leið en um Teigsskóg vegna mikilla og neikvæðra umhverfisáhrifa. Skipulagstofnun mælir með jarðgöngum undir Hjallaháls og vegi yfir Ódrjúgsháls en sú leið er metin 4,5 milljörðum kr. dýrari. Hreinn Haraldsson sagði kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að vilji Vegagerðarinnar sé skýr. „Það er ekki síst með tilliti til þess að það er alveg ljóst að það liggur ekki fyrir fjármagn í miklu dýrari leiðir og við viljum bara fá þessar framkvæmdir í gang sem allra fyrst.“

Hreinn viðurkennir að mikil óvissa ríki um hversu hratt það gangi. „Ég er að vonast til að við getum eitthvað farið að hreyfa okkur í haust.“

Smári

DEILA