41 milljón til ferðamannastaða á Vestfjörðum – Dynjandi með hæsta styrkinn

Dynjandi er eðlilega einn af vinsælustu áfangastöðum Vestfjarða.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra ferðamála hefur staðfest tillögu stjórnar Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða um úthlutun úr sjóðnum. Alls eru veittir styrkir til 58 verkefna hringinn í kringum landið og nemur heildarfjárhæð styrkja 610 milljónum króna og 41 milljón kemur í hlut ferðamannastaða á Vestfjörðum. Hæsta styrkinn á Vestfjörðum fær Umhverfisstofnun til að gera útsýnispall á Dynjanda á stað þar sem ,,náttúrulegur“ pallur er fyrir nálægt fossinum, en styrkurinn hljóðar upp á 20 milljónir króna. Hæsti styrkurinn á landvísu er að upphæð 60 milljón kr. til verkefna í Landmannalaugum.

Þetta er sjötta árið sem Framkvæmdasjóður ferðamannastaða úthlutar styrkjum. Hlutverk sjóðsins samkvæmt lögum er í fyrsta lagi að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða umsjón um land allt. Í annan staða að leitast við að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins og í þriðja lagi fjölga viðkomustöðum ferðafólks til að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði.

Með úthlutuninni í ár nemur heildarupphæð styrkveitinga úr sjóðnum 3,56 milljörðum króna.

Styrkir til ferðamannastaða á Vestfjörðum

  • Umhverfisstofnun – útsýnispallar við Dynjanda. Kr. 20.000.000,- styrkur til gera útsýnispall á stað þar sem ,,náttúrulegur“ pallur er fyrir nálægt fossinum. Innviðaverkefni á vinsælum ferðamannastað á Vestfjörðum. Verkefnið verndar náttúru og eflir öryggi.
  • Bolungarvíkurkaupstaður – öryggi og verndaraðgerðir á Bolafjalli. Kr. 2.800.000,- styrkur til að gera leiðbeinandi stíga á fjallinu, uppsetningu kaðalhandriðs og hönnun og uppsetningu viðvörunarskilta. Mikilvægt öryggisverkefni á frábærum útsýnisstað og vaxandi ferðamannastað á Bolafjalli.
  • Ísafjarðarbær – göngustígur við Buná í Tungudal. 858.000,- styrkur til að laga stíginn, stöðva gróðurskemmdir, framlengja stíginn, klippa kjarr, koma fyrir haldreipum og smíða tröppur upp að hinum sögufræga Siggakofa, kofa Sigurðar Sigurðssonar, sem fyrr á tímum var geitahirðir Ísfirðinga. Um tíu þúsund manns leggja land undir fót á þessu fallega svæði í Tungudal. Stígurinn er hinsvegar varasamur og gróður er farinn að troðast niður. Verkefnið er gott náttúruverndar- og öryggisverkefni.
  • Ísafjarðarbær – Naustahvilft, göngustígur og upplýsingaskilti. Kr. 4.344.000,- styrkur til að skipuleggja, hanna og útbúa göngustíg upp í Naustahvilft í Skutulsfirði. Vinsæl gönguleið er upp í Naustahvilft, en þar hefur náttúra látið á sjá vegna átroðnings. Verkefnið er sérstaklega mikilvægt vegna náttúrverndar en hefur einnig gildi fyrir öryggismál ferðamanna.
  • Reykhólahreppur – Reykhólar – Lagning stíga, merkingar og frekari hönnun Kúalaugar. Kr. 6.700.000,- styrkur til stíga- og áningarstaðagerðar, öryggismerkinga auk lítilsháttar hönnunar neðan við þorpið á Reykhólum. Umhverfi Reykhóla er áhugavert og varasamt í senn vegna hvera og votlendis. Verkefnið er til þess fallið að efla öryggi ferðamanna, auka aðdráttarafl og vernda náttúru.
  • Súðavíkurhreppur – áningarstaður við Hvítanes. Kr. 13.000.000,- styrkur til jarðvinnu, fyllinga og grjótvarnar, sem þarf til að gera áningarstað; bílastæði, útsýnispall og göngustíga. Selalátrið við Hvítanes í Skötufirði er nú þegar orðið að vinsælum skoðunarstað sela, en bæta þarf öryggi ferðamanna og tryggja þarf náttúrulega sjálfbærni staðarins. Verkefnið er því mikilvægt öryggis- og náttúruverndarverkefni.

smari@bb.is

DEILA