41 milljón til ferðamannastaða á Vestfjörðum – Dynjandi með hæsta styrkinn

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra ferðamála hefur staðfest tillögu stjórnar Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða um úthlutun úr sjóðnum. Alls eru veittir styrkir til 58 verkefna hringinn í kringum landið og nemur heildarfjárhæð styrkja 610 milljónum króna og 41 milljón kemur í hlut ferðamannastaða á Vestfjörðum. Hæsta styrkinn á Vestfjörðum fær Umhverfisstofnun til að gera útsýnispall á Dynjanda á stað þar sem ,,náttúrulegur“ pallur er fyrir nálægt fossinum, en styrkurinn hljóðar upp á 20 milljónir króna. Hæsti styrkurinn á landvísu er að upphæð 60 milljón kr. til verkefna í Landmannalaugum.

Þetta er sjötta árið sem Framkvæmdasjóður ferðamannastaða úthlutar styrkjum. Hlutverk sjóðsins samkvæmt lögum er í fyrsta lagi að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða umsjón um land allt. Í annan staða að leitast við að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins og í þriðja lagi fjölga viðkomustöðum ferðafólks til að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði.

Með úthlutuninni í ár nemur heildarupphæð styrkveitinga úr sjóðnum 3,56 milljörðum króna.

Styrkir til ferðamannastaða á Vestfjörðum

  • Umhverfisstofnun – útsýnispallar við Dynjanda. Kr. 20.000.000,- styrkur til gera útsýnispall á stað þar sem ,,náttúrulegur“ pallur er fyrir nálægt fossinum. Innviðaverkefni á vinsælum ferðamannastað á Vestfjörðum. Verkefnið verndar náttúru og eflir öryggi.
  • Bolungarvíkurkaupstaður – öryggi og verndaraðgerðir á Bolafjalli. Kr. 2.800.000,- styrkur til að gera leiðbeinandi stíga á fjallinu, uppsetningu kaðalhandriðs og hönnun og uppsetningu viðvörunarskilta. Mikilvægt öryggisverkefni á frábærum útsýnisstað og vaxandi ferðamannastað á Bolafjalli.
  • Ísafjarðarbær – göngustígur við Buná í Tungudal. 858.000,- styrkur til að laga stíginn, stöðva gróðurskemmdir, framlengja stíginn, klippa kjarr, koma fyrir haldreipum og smíða tröppur upp að hinum sögufræga Siggakofa, kofa Sigurðar Sigurðssonar, sem fyrr á tímum var geitahirðir Ísfirðinga. Um tíu þúsund manns leggja land undir fót á þessu fallega svæði í Tungudal. Stígurinn er hinsvegar varasamur og gróður er farinn að troðast niður. Verkefnið er gott náttúruverndar- og öryggisverkefni.
  • Ísafjarðarbær – Naustahvilft, göngustígur og upplýsingaskilti. Kr. 4.344.000,- styrkur til að skipuleggja, hanna og útbúa göngustíg upp í Naustahvilft í Skutulsfirði. Vinsæl gönguleið er upp í Naustahvilft, en þar hefur náttúra látið á sjá vegna átroðnings. Verkefnið er sérstaklega mikilvægt vegna náttúrverndar en hefur einnig gildi fyrir öryggismál ferðamanna.
  • Reykhólahreppur – Reykhólar – Lagning stíga, merkingar og frekari hönnun Kúalaugar. Kr. 6.700.000,- styrkur til stíga- og áningarstaðagerðar, öryggismerkinga auk lítilsháttar hönnunar neðan við þorpið á Reykhólum. Umhverfi Reykhóla er áhugavert og varasamt í senn vegna hvera og votlendis. Verkefnið er til þess fallið að efla öryggi ferðamanna, auka aðdráttarafl og vernda náttúru.
  • Súðavíkurhreppur – áningarstaður við Hvítanes. Kr. 13.000.000,- styrkur til jarðvinnu, fyllinga og grjótvarnar, sem þarf til að gera áningarstað; bílastæði, útsýnispall og göngustíga. Selalátrið við Hvítanes í Skötufirði er nú þegar orðið að vinsælum skoðunarstað sela, en bæta þarf öryggi ferðamanna og tryggja þarf náttúrulega sjálfbærni staðarins. Verkefnið er því mikilvægt öryggis- og náttúruverndarverkefni.

smari@bb.is

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!