Þá var tíðin „óminnilega góð“

Útsýnið frá bryggjunni á Gjögri er ómótstæðilegt.

Veðurfar á Vestfjörðum hefur verið sérlega gott þennan veturinn, óveður fátíð, úrkoma með minna móti og snjóalög létt sem gremur og gleður á víxl. Árið 1929 var einstaklega gott ár veðurfarslega séð hér á landi, ef kannski undan eru taldir síðustu tveir mánuðir ársins. Um þetta má lesa í mánaðarlegu yfirliti Níelsar Jónssonar sem Trausti Jónsson veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands tók saman og birti á vef stofnunarinnar fyrir nokkrum árum. Níels var veðurathugunarmaður á Grænhóli við Gjögur á Ströndum á árunum 1921 til 1934.

Er við sem uppi erum árið 2017 upplifum sérlega mildan marsmánuð, er til gamans birt yfirlit Níelsar yfir marsmánuð árið 1929, sem einnig var með eindæmum góður:

„Óminnilega góð tíð. Tveir elstu búhöldar hjer á áttræðisaldri muna engan vetur þessum líkan. Þeir Kristinn Magnússon, Kambi, og Guðm. Pjetursson, Ófeigsfirði, og enginn hjer ungur eða gamall. Tíunda mars kannaði jeg mjög víða klaka eða þýðu í jörð með mjóum stáltein 90 cm löngum. Var þá mjög óvíða að finna klaka í túnum og móum, aðeins lítils háttar þar sem mýrlent var og þó lítilsháttar smáblettir, flestir svo þunnir að teinninn gekk í gegnum þá. Í móum fann jeg klaka tölur í stöku lágum og loðnum börðum. Klakalaus er nú talin jörð öll á láglendi í mánaðarlokin.

Gróður í túnum mikill til að sjá 18. mars og nál lítils háttar í úthaga en þó gráblettótt tún enn í mánaðarlokin en tínir mikið grænt í úthaga. Lambagras sje mikið og víða útsprungið á bersvæði 30. mars og sóleyjahnappar í túnum á stöku stöðum. Öll vinna möguleg til jarðræktar. Frekar ókyrð af og til til sjóar en fiskur talsvert vandhittur, er í ræmum víða í dýpishöllum og svo hnöppum. Fiskreyta 2-300 á 6-8 lóðir fæst hér á firðinum.

Íshús víst flest hjer klaka eða snjólaus og illnáandi í snjó nú, fyrir skip, sagt norður allar strandir. Bagalegur fleyrum en Grænlenskum skrælingjum blíðuveturinn þessi.

Farfuglar. Heiðlóur hjer 28. mars. Tjaldar hjer 8. mars. Svanir á vötnum 10. mars og síðan. Lómar fyr. Af fönnum mínum er nú Skarðagilsskaflinn einn eftir en þó lítill“

Skrif Níelsar fyrir árið 1929 í heild sinni má lesa hér.

DEILA