Yfir 5.000 undirskriftir komnar

Hjallaháls í Gufudalssveit er erfður farartálmi, sér í lagi að vetrarlagi.

Í fyrradag hófst á vefsíðunni www.60.is undirskriftarsöfnun undir yfirskriftinni „Ákall til Íslendinga!“ Þar er kallað eftir undirskriftum í baráttu Vestfirðinga fyrir bættum vegsamgöngum og taka undir áskorun þeirra til yfirvalda um að staðið verði við þau fyrirheit sem gefin voru fyrir síðustu alþingiskosningar hvað varðar boðaðar framkvæmdir í vegsamgöngum í Gufudalssveit. Í yfirlýsingu á síðunni segir að Vestfirðingar hafi um áratugaskeið barist fyrir bættum vegsamgöngum um sunnanverða Vestfirði. „Loksins þegar tekin hafði verið ákvörðun um framkvæmdir við lokaáfanga leiðarinnar um Gufudalssveit, frá Bjarkalundi til Flókalundar, ákvað samgöngu- og sveitastjórnaráðherra skyndilega og upp úr eins manns hljóði að ógilda fyrri ákvörðun með þeirri skýringu að fjármagn væri ekki fyrir hendi. Þessa ákvörðun tók ráðherrann án nokkurs samráðs við þingmenn kjördæmisins eða Alþingi yfir höfuð.“

Landsmenn hafa ekki legið á liði sínu og hafa yfir 5000 undirskriftir safnast frá því er ákallið fór í loftið. Haukur Már Sigurðsson á Patreksfirði er einn þeirra sem stendur að baki undirskriftarsöfnuninni og segist hann hreint orðlaus yfir hversu vel hefur gengið. Hann segir stefnan hafi verið sett á að ná 6000 undirskriftum, álíka fjölda og íbúatölu Vestfjarða og segir hann að þeir hafi gefið sér þrjár til fimm vikur til þess: „Þetta er alveg ótrúlegt! Maður veit aldrei hvað ber að garði í lífinu. Ég vissi svo sem að við nytum einhvers stuðnings, við fundum vel fyrir honum eftir útgöngufundinn, en ég átti ekki von á að þetta gerðist svona hratt. Undirskriftirnar voru í raun farnar að streyma inn áður en vefurinn fór formlega í loftið. Það er líka gaman að sjá að undirskriftir eru að koma allsstaðar að af landinu svo stuðningurinn liggur víða.“

Vestfirðingar sem aðrir hafa verið liðtækir á samfélagsmiðlum að benda á undirskriftarsöfnunina og taka undir orð forsvarsmannanna sem segja í yfirlýsingu: „Mikið er í húfi. Byggð á sunnanverðum Vestfjörðum á allt sitt undir því að helsta lífæð samfélaganna til höfuðborgarsvæðisins byggist á heilsársvegi í ætt við aðra helstu þjóðvegi landsins. Leiðin um Ódrjúgsháls og Hjallaháls er með hættulegri fjallavegum landsins og gjarnan farartálmi um vetur. Krafan er einföld. Hnekkið ákvörðun ráðherra og tryggið fjármagn til þessara framkvæmda strax.“

Í dag, föstudag, verður á Patreksfirði fundur með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins undir yfirskriftinni „Á réttri leið.“ Þar verður málið tekið fyrir og er búist við að íbúar fjölmenni á fundinn sem haldinn verður í Félagsheimili Patreksfjarðar klukkan 17. Þar munu ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins Haraldur Benediktsson, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir nýsköpunar- iðnaðar- og ferðamálaráðherra, Teitur Björn Einarsson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins halda erindi og svara spurningum fundarmanna.

Haukur Már segir að ekki verði gefist upp fyrr en í fulla hnefana og baráttunni haldið áfram þar til fjármagn til vegframkvæmdanna verði tryggt. Undirskriftasöfnunin muni halda áfram og næstu skref verði þá borgarafundir og mótmæli. Hægt er að leggja undirskriftarsöfnuninni lið hér.

annska@bb.is

 

 

DEILA