Veittist að lögreglumönnum

Í dagbók lögreglunnar á Vestfjörðum kemur fram að aðfaranótt 19. febrúar var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna nokkurra gesta á vínveitingastað á Ísafirði sem dyraverðir áttu í erfiðleikum með. Einn gestanna, áberandi ölvaður, var handtekinn eftir að hafa veist að lögreglumönnum sem komu til aðstoðar dyravörðum. Sá hinn sami var vistaður í fangaklefa og látinn sofa úr sér áfengisvímuna. Málið er til skoðunar hjá lögreglu.

Tuttugu og fimm ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Flestir voru stöðvaðir í Ísafjarðardjúpi en einnig í Strandasýslu og í Vesturbyggð. Sá sem hraðast ók var mældur á 127 km hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km.

Af og til hefur það gerst að ökumenn sem lögreglan stöðvar eru ekki með ökuskírteini á sér. Lögreglan bendir á að heilög skylda hvílir á ökumönnum að hafa slík skilríki á sér við akstur og framvísa við lögreglu sé þess óskað. Sekt liggur við. Ökumenn eru hvattir til að gæta vel að þessum.

Einn ökumaður var kærður í vikunni fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu á gatnamótum einum á Ísafirði.

Um miðjan dag þann 19. febrúar barst tilkynning um ammoníakslykt frá frystigeymslu einni á Ísafirði. Slökkvilið var kallað út ásamt starfsmönnum viðkomandi fyrirtækis. Greiðlega tókst að loka fyrir lekann. Ekkert tjón eða skaði varð af þessu.

smari@bb.is

DEILA