Undankeppnum fyrir Stóru upplestrarkeppnina lokið

Keppendur í undankeppninni á Þingeyri klárir í slaginn

Grunnskólar Ísafjarðarbæjar hafa í vikunni haldið skólakeppnir meðal nemenda í 7.bekkjum skólanna fyrir Stóru upplestrarkeppnina sem fram fer í Hömrum þann 9. mars. Á þriðjudaginn fór undankeppni fram í Grunnskólanum á Þingeyri. Þá komu saman 7. bekkjar nemendur úr grunnskólunum á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri og lásu sögubúta og ljóð. Dómararnir Hildur Inga Rúnarsdóttir, Elfar Logi Hannesson og Guðrúnar Birgisdóttir völdu þau Auðbjörgu Ernu Ómarsdóttur og Grétu Proppé Hjaltadóttur frá G.Þ. og Einar Arnalds frá G.Ö til áframhaldandi keppni.

Á Ísafirði fór keppnin fram í sal grunnskólans á miðvikudag og þar völdu þau: Jóna Benediktsdóttir, Birna Lárusdóttir og Baldur Ingi Jónasson þau Arnar Rafnsson, Kára Eydal, Lenu Rut Ásgeirsdóttur, Lilju Borg Jóhannsdóttur og Snæfríði Lillý Árnadóttur í lokakeppnina.

Í síðustu viku fór undankeppni fram við Grunnskóla Bolungarvíkur og voru þar hlutskörpust þau Jón Karl Karlsson og Íris Embla Stefánsdóttir. Þessir tíu sjöundu bekkingar sem valdir voru munu svo stíga á stokk í Hömrum og láta ljós sitt við upplesturinn skína.

Á öllum stöðum var dómari vandi á höndum að velja úr hópi þeirra glæsilegu upplesara sem komu fram, líkt og Erna Höskuldsdóttir skólastjóri Grunnskólans á Þingeyri segir að þrátt fyrir að komast kannski ekki áfram þá er það stórsigur fyrir hvern og einn að koma fram og lesa vel fyrir framan fullt af fólki.

Stóra upplestrarkeppnin hófst í Hafnarfirði árið 1996 og er markmið hennar að vekja athygli og áhuga nemenda á vönduðum upplestri og framburði.

annska@bb.is

 

DEILA