Súðavíkurskóli sigraði í Lífshlaupinu

Nemendur á yngsta stigi í Súðavíkurskóla

Súðavíkurskóli sigraði í flokki skóla að 90 nemendum í grunnskólakeppni Lífshlaupsins sem lauk í gær. Gríðarlega góð þátttaka var í skólanum þar sem allir voru skráðir til leiks og var skráð hreyfing tæpa 13 daga af þeim 14 sem keppnin stóð, eða 12,89 og var langt í annað sætið sem var með 9,39. Grunnskólakeppni Lífshlaupsins hófst 1.febrúar og í keppninni mátti skrá alla hreyfingu sem náði minnst 60 mínútum samtals á dag hjá nemendum.

Dagbjört Hjaltadóttir kennari við Súðavíkurskóla segir að hvert tækifæri hafi verið notað til að skoppa út um allar grundir og móa. Hin fjölbreyttustu verkefni voru framkvæmd sem fólu í sér hreyfingu og skiluðu stigum í pottinn. Til dæmis var í stærðfræðitíma mæld lengd steypireyðar, sem taldi eina 30 metra, farið var í myrkragöngu þar sem gengið var út úr upplýstu þorpinu út í myrkrið í kring og farið var í skólaskóginn, þar sem nemendur hafa plantað trjám og voru tré þar mæld, svo einhver dæmi séu tekin.

Vinnustaðakeppni Lífshlaupsins er í gangi allan mánuðinn og í flokki vinnustaða með 10-29 starfsmenn leiðir Súðavíkurskóli einnig. Góð þátttaka er í hreyfiátakinu og í gær voru skráðar hreyfimínútur komnar í 9 milljónir og dagar með lágmarkshreyfingu orðnir rétt rúmlega100 þúsund talsins.

Verðlaunaafhending Lífshlaupsins fer fram föstudaginn 24. febrúar í sal KSÍ þar fá þeir sem skarað hafa fram úr í keppninni glæsilega viðurkenningaplatta afhenta fyrir frammistöðuna.

annska@bb.is

 

 

DEILA