Níundi flokkur drengja hjá Vestra tryggðu sér á dögunum leik um bikarmeistaratitil KKÍ með frækilegum sigri á Fjölni á útivelli. Á sunnudaginn kemur, þann 12. febrúar, rennur stóra stundin upp þegar liðið mætir Valsmönnum í úrslitaleiknum. Leikurinn hefst klukkan 9:45 og fer að sjálfsögðu fram í Laugardalshöllinni. Allir stuðningsmenn Vestra sem staddir eru á höfuðborgarsvæðinu eru hvattir til að mæta í Höllina og styðja strákana. Það þarf þó enginn að missa af leiknum því hann verður sýndur í beinni útsendingu á vef RÚV.

Níundi flokkur er yngsti aldursflokkurinn sem tekur þátt í bikarkeppni KKÍ. Leikurinn er því frumraun leikmanna beggja liða á stóra sviðinu og verður dýrmæt reynsla fyrir alla þátttakendur. Yngvi Páll Gunnlaugsson þjálfari piltanna er þó enginn nýgræðingur þegar kemur að bikarúrslitaleikjum. Hann hefur bæði stýrt meistaraflokki kvenna og yngri flokkum til sigurs í úrslitum, fyrir utan að eiga að baki fjölda Íslandsmeistaratitla með yngri flokkum og meistaraflokkum. Reynslubrunnur Yngva mun því án efa koma liðinu vel á sunnudag þegar á hólminn er komið.

Það er nokkuð síðan vestfirðingar áttu síðast fulltrúa í Höllinni á bikarhelgi KKÍ. Flestir körfuboltaáhugamenn muna þó eftir bikarævintýrinu árið 1998 þegar meistaraflokkur KFÍ lék gegn Grindavík.

smari@bb.is

DEILA