Stækka við sig í bát og kvóta

Ásdís ÍS, áður Örn GK.

Ný Ásdís ÍS er komin í slipp í Stykkishólmi er væntanleg til heimahafnar í Bolungarvík um miðjan mars. Í byrjun árs festi útgerðarfyrirtækið Mýrarholt ehf. kaup á dragnótarbátnum sem bar áður nafnið Örn GK. „Þetta er mun stærri bátur, mælist 160 brúttótonn meðan hinn er 65 brúttótonn. Við erum að stækka við okkur, bæði í bát og í aflaheimildum“ segir Einar Guðmundsson, skipstjóri og einn eigenda Mýrarholts. Að sögn Einars fylgir bátnum kvóti upp á 4-500 tonn. Báturinn var smíðaður í Póllandi árið 1999.

Aflabrögðin hafa verið með eindæmum góð hjá áhöfninni á Ásdísi sem telur einungis þrjá menn og á síðasta almanaksári var aflinn um 1.900 tonn „Þetta er búið að vera ævintýralegt fiskirí síðustu tvö ár, en þetta getur fljótt farið í sama farið. Það eru gífurlegar breytingar í lífríkinu með hækkandi sjávarhita,“ segir Einar.

Auk þess að vera á dragnót hefur Ásdís fiskað rækju í Ísafjarðardjúpi og svo verður einnig með nýja bátinn.

smari@bb.is

DEILA