Skýlaus krafa um nýja tekjustofna

Fjórðungssambandið vill að sveitarfélögin fái beinar skatttekjur af fiskeldi.

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga hefur samþykkt tillögu um að sambandið taki upp á sína arma umræðu um nýja tekjustofna sveitarfélaga. Pétur G. Markan, formaður Fjórðungssambandsins, segir nauðsynlegt fyrir sveitarfélögin, sem hafa mikla þjónustuskyldu, að þau verji tekjustofna sína og sæki nýja sé þess kostur. „Það er algjörlega borðleggjandi að sveitarfélög eiga rétt á hlutdeild í skattstofnum á fyrirtæki. Enda ekki til það fyrirtæki sem ekki er í sveit sett,“ segir Pétur sem telur eðlilegt að sveitarfélögin fái hlut af fjármagnstekjuskatti. „Það myndi rétta af útsvarsskerðingu vegna ehf-væðingarinnar,“ segir hann.

Það er ekki einvörðungu fjármagnstekjuskattur sem Pétur og stjórn Fjórðungssambandsins telja að sveitarfélögin eigi að fá hlutdeild í. „Það er afar brýnt að sveitarfélögin geri skýlausa kröfu um tekjustofna af eldisuppbyggingunni. Þetta er gott verkefni fyrir Fjórðungssambandið að vinna að enda  miklir hagsmunir í húfi fyrir almenning á Vestfjörðum.“

Stjórnin ætlar að láta vinna minnisblað um þessa nýju tekjustofna og verður minnisblaðið lagt fyrir næsta stjórnarfund. Í framhaldinu ætlar sambandið að taka upp viðræður við stjórnvöld um málið.

smari@bb.is

DEILA