Sigurvon efnir til listaverkauppboðs

Verk Péturs Guðmundssonar sem boðið verður upp hjá krabbameinsfélaginu Sigurvon í mars

Krabbameinsfélagið Sigurvon rær á nýstárleg mið í fjáröflun  í marsmánuði er það verður með uppboð á verkum eftir vestfirska listamenn. Síðustu ár hefur félagið tekið þátt í mottumars með einum eða öðrum hætti en í ár verður listaverkauppboðið í brennidepli. Fimm listamenn leggja Sigurvon lið og gefa verk á uppboðið, hafa þeir verið kynntir einn af öðrum á Fésbókarsíðu félagsins þar sem búið að segja frá þremur og verða hinir tveir kynntir á næstu vikum.

Fyrstur var kynntur til leiks ísfirski myndlistarmaðurinn Pétur Guðmundsson, þar sem segir: …Hann lærði í Myndlistar og handíðaskóla Íslands 1972 til 1976. Síðan þá hefur hann stundað myndlist af ýmsu tagi. Verkið sem Pétur gefur í þetta verkefni er ótrúlega fallegt og mjög svo vestfirskt ef svo má segja.

Næst var kynnt hin bolvíska Berglind Halla Elíasdóttir: …Hún er 24 ára leiklistarnemi við Listaháskóla Íslands. Berglind Halla er alin upp í Bolungarvík og hefur búið þar meirihluta ævi sinnar en flutti suður árið 2012 til að fara í nám. Berglind Halla hefur teiknað frá því hún man eftir sér og byrjaði snemma að reyna að herma eftir því sem fyrir augum bar. Aðeins 5 ára gömul sagðist hún ætla að verða listmálari eða leikkona þegar hún yrði stór og virðast þau plön vera að ganga vel eftir. Verkið sem Berglind gefur er teikning eftir ljósmynd eftir hana sjálfa.

Þá var kynnt hin vestfirska Ólafía Kristjánsdóttir: Ólafía er listamaður, húðflúrari og eigandi húðflúrstofunnar IMMORTAL art í Reykjavík. Ólafía fæddist í Bolungarvík en ólst upp á Ísafirði og á ættir að rekja úr Ísafjarðardjúpi, faðir hennar er frá Látrum og móðir hennar frá Vatnsfirði. Ólafía hefur alltaf verið mjög upptekin og heilluð af myndlist.

Hægt er að fylgjast með verkefninu á Fésbókarsíðu Sigurvonar, þar sem meðal annars er búið að birta myndir af tveimur verkanna sem boðin verða upp.

annska@bb.is

DEILA