Rassar skemmta á Ísafirði

Hljómsveitin Rassar gleður Ísfirðinga og nærsveitunga með tónum og tali í kvöld og annað kvöld, en hljómsveitin á rætur sínar að rekja til Héraðsskólans að Núpi þar sem hljómsveitarmeðlimir voru við nám veturinn 1969-1970. Sveitin starfaði einungis þetta eina skólaár, en segja má að hún hafi haft visst spádómsgildi fólgið í sér er tveir meðlima hennar; Egill Ólafsson og Ísfirðingurinn Rúnar Þór Pétursson lögðu báðir fyrir sig atvinnumennsku í tónlist, en þriðji félaginn Benedikt Helgi Benediktsson gerðist rannsóknarlögreglumaður.

Hátt í 50 ár eru liðin frá því þeir félagar trylltu lýðinn að Núpi og óhætt er að segja að líkt og sannra poppara er siður hafi þeir ekki alltaf fylgt settum reglum út í hörgul. Eitt sinn gerðu Rassarnir plakat þar sem þeir beruðu á sér afturendann, sem varð þess valdandi að félagarnir voru reknir úr skólanum í viku og eftir það hafði sveitin ekki leyfi til að leika utan skólalóðarinnar. Það kannski skýrir að hluta til að frægðarsólin hafi ekki risið hærra á sínum tíma, en minningin um stórgott skólaband lifði meðal Núpsverja og komu þeir félagar aftur saman undir merkjum Rassa á skólamóti á Núpi árið 2014. Þá notuðu þeir einnig tækifærið og spiluðu á Ísafirði við góðar undirtektir. Nú endurtaka þeir leikinn og spila á Húsinu í kvöld á tónleikum sem hefjast klukkan 21:15 og annað kvöld er þeir hefja leika klukkan 21:45. Von er á skemmtilegri dagskrá þar sem félagarnir leggja áherslu á að spila tónlistina sem þeir fíluðu á yngri árum ásamt því sem góðar sögur fá gjarnan að fylgja.

annska@bb.is

DEILA