Rangfærslur um stóru málin í samfélaginu

Gísli Halldór Halldórsson.

Jóhann Bæring Pálmason óskaði eftir því við mig á Facebook að ég útlistaði þær rangfærslur sem ég hafði fullyrt að stútfullt væri af í grein hans í BB um stóru málin í samfélaginu. Ég geri ráð fyrir að Jóhann Bæring hafi meint vel með sinni grein og jafnvel skrifað eftir bestu vitund, en hann hlýtur þá að hafa fengið afskaplega villandi upplýsingar. Það er því sjálfsagt mál að verða við ósk hans um að koma því sem rétt er á framfæri. Leiðréttingarnar fara hér á eftir.

Norðurtanginn

Fyrsta villan í grein Jóhanns Bærings er að telja að Ísafjarðarbær greiði fyrir ónotað húsnæði í Norðurtanganum. Það er rangt að Ísafjarðarbær greiði leigu fyrir tómt húsnæðið. Það er þó rétt, því miður, að húsnæðið í Norðurtanganum hefur enn ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar voru við undirritun leigusamnings. Vegna ástands húsnæðisins getur Ísafjarðarbær enn ekki litið svo á að húsnæðið hafi verið afhent og mun að sjálfsögðu ekki greiða leigu fyrr en verki húseigandans er lokið samkvæmt skilalýsingu sem fylgdi leigusamningi. Í skilalýsingu er tekið á fjölmörgum málum og meðal annars brunavörnun.

Það kann að vera að hægt sé að halda kostnaði svo lágum sem Jóhann Bæring nefnir með því að reisa skemmu undir safnageymslurnar. En er það einhver framtíðarsýn fyrir Ísafjarðarbæ að reisa skemmur í hvert skipti sem við þurfum húsnæði? Fylla bæinn af skemmum? Nei, framtíðarsýn er að endurnýta húsnæðið í Norðurtanganum til 10 ára og ráðast svo í nýbyggingu, t.d. í tengslum við Gamla sjúkrahúsið þar sem gera mætti námsfólki og notendum safnsins hátt undir höfði.

Reiðskemman

Það er rangfærsla að bærinn ætli að greiða 49% af rekstrarkostnaði við reiðskemmuna sem Jóhann Bæring kallar höll. Bærinn mun leggja hlutafé til sem 49% eignarhlut í reiðskemmunni, í því felst hluti framlagsins til hestamanna, eftir það mun bærinn ekki bera ábyrgð á rekstrinum. Eins og flestir vita þá borgar Ísafjarðarbær venjulega 100% af rekstri íþróttamannvirkja, þarna er því um sérstaklega góð kjör að ræða fyrir bæinn. Vafalaust munu hestamenn standa undir þeirri ábyrgð að reka reiðskemmuna með sóma og byggja upp hestaíþróttir í Ísafjarðarbæ.

Greinarhöfundur telur að HSV hafi ekki haft getu til að segja sitt um drögin að samkomulagi við Hestamannafélagið Hendingu. Hið rétt er að HSV getur sagt allt um samninginn við hestamenn sem HSV telur rétt að segja, einmitt þess vegna fékk HSV samninginn til umsagnar. HSV, eins og margir fleiri, fagnar því að þetta mál skuli loks til lykta leitt eftir að hafa þvælst fyrir bæjaryfirvöldum í nærri áratug.

Ísafjarðarbær mun hér eftir sem hingað til hafa samráð við HSV um íþróttamál.

Ein rangfærslan í viðbót er að 20 manns muni nota reiðskemmuna. Ástæða þess hve fækkað hefur í hópi hestafólks er aðstöðuleysi. Hestaíþróttir eru þriðja vinsælasta íþrótt landsmanna hvað þátttakendafjölda snertir og engin ástæða til að ætla annað en að aðstaða á nútímavísu, sambærileg og annarsstaðar á landinu, muni draga að sér fleiri en 20 notendur.

Á síðasta ári var unnið í því hjá Eignasjóði Ísafjarðarbæjar að kanna bestu leiðir til endurnýjunar eða uppfærslu á gólfinu í íþróttahúsinu. Verið er að kanna hvort hefja megi framkvæmdir á þessu ári.

Sundhöll Ísafjarðar

Ég get ekki rengt tölur Jóhanns Bærings um Sundhöll Ísafjarðar, þær kunna jafnvel að fara nærri lagi. Þetta verður kannað betur á árinu, skoðað hvernig heildarútfærsla breytinga og viðhalds þarf að líta út til að nýtast samfélaginu sem best. Í því verða allar kostnaðartölur skoðaðar, innanhúss og utan. Það er þó rétt að benda á að mikið af þeim kostnaði má í raun kalla sokkinn kostnað, það er að segja engin leið er að koma í veg fyrir stóran hluta kostnaðarins. Þetta er vegna þess að ef ekki á að rífa sundhöllina þá mun þurfa að grípa til kostnaðarsamra aðgerða, hvernig sem við hyggjumst nýta bygginguna. Viðhald og breytingar í því skyni munu alltaf kosta hundruð milljóna.

Ég minni einnig á að sundlaugin í Sundhöllinni er mikið nýtt fyrir skólasund og þyrfti að leysa þau mál með ærnum kostnaði og fyrirhöfn ef ekki á að hafa sundlaugin áfram.

Jóhann Bæring má auðvitað draga upp þá mynd að hægt sé að byggja enn eina ódýru skemmuna yfir 25 metra sundlaug. Kostnaður sá er byggingarfulltrúi gaf upp á íbúafundi í Vestrahúsinu er 750 milljónir króna fyrir umbúnað laugarinnar, sundlaugarhús fyrir 25 x 12,5 metra sundlaug (skv. S002), 1.500m2 á um 500.000 kr./m2.

Krafturinn í bæjarapparatinu

Ekki er hægt að átta sig á því hvaðan Jóhann Bæring hefur þær sögur að jafn mörg mál hafi ekki áður komi jafn seint á borð æðstu stofnana bæjarins, það er jafnvel erfitt að átta sig á hvað hann meinar með þessari setningu – kannski á hann við samkomulagið við Hendingu, sem hefði átt að koma til afgreiðslu fyrir mörgum árum síðan. Samningar við Hestamannafélagið Hendingu hafa reyndar komið á dagskrá áður og hafa nú verið til umfjöllunar af og til í eitt og hálft ár.

Það er rétt að mörg stór og merkileg mál koma nú inn á borð æðstu stofnana bæjarins, það er kraftur í bæjarapparatinu þessa dagana. Það sem er þó einna helst einkennandi er að Í-listinn fer ekkert í felur með þessi mál, vekur athygli á erfiðum málum og leyfir umræðunni að eiga sér stað. Oft er sú umræða hatrömm, a.m.k. er hún lífleg og er það vel. Enn stendur til dæmis yfir umræðan um samninginn við Hendingu, hefur tekið tæpa tvo mánuði og ákvörðun bæjarstjórnar er enn ekki lokið.

Það er rétt að meirihlutinn talar um að bæjarsjóður hafi aldrei staðið jafn vel fjárhagslega. Það er líka einmitt þannig sem það er. Þrátt fyrir að núverandi bæjarstjórn hafi fengið slæma sendingu með hjúkrunarheimilinu, sem byggðist á illa unninni og óuppfærðri kostnaðaráætlun, þá hefur náðst að lækka skuldaviðmið Ísafjarðarbæjar þannig að það hefur aldrei verið lægra og lítur út fyrir að vera um 120% í lok árs 2016, en það mun skýrast betur þegar ársreikningur liggur fyrir á næstunni.

Skólamál

Lagt hefur verið allt kapp á að uppfylla þá skólastefnu Ísafjarðarbæjar að geta vistað börn 18 mánaða og eldri á leikskólum bæjarins, bæði á yfirstandandi kjörtímabili og því síðasta. Þessi árangur hefur nánast alltaf náðst frá því stefnan var sett og stöndum við mörgum sveitarfélögum framar, þar á meðal Reykjavíkurborg. Miklu fé hefur nú verið varið til að bjóða upp á úrvals aðstöðu á jarðhæð Tónlistarskólans og er sómi að. Einnig hefur verið sett til hliðar fé á fjárhagsáætlun 2018 til að stækka leikskólann Eyrarskjól.

Vissulega væri gaman að geta boðið leikskólavist yngri börnum en 18 mánaða og er mikill vilji til þess hjá meirihluta Í-listans, en til þess að færa aldurinn niður í 12 mánuði þarf mikið rekstrarfé, líklega 50 milljónir á ári. Kannski nálgumst við þann stað með áframhaldandi góðum rekstri bæjarins, eða þá með því að ríkið úthluti sveitarfélögum þá tekjustofna sem þarf til að takast við verkefnið og þá helst frá lokum fæðingarorlofs.

Bæði í grunnskólum og leikskólum hefur átakið Stillum saman strengi verið í gangi þar sem lögð er ofuráhersla á að búa börnum stuðning og aðbúnað til að ná sem bestum árangri í námi, lífi og leik og hefur verkefnið tekist frábærlega.

Það er grátlegt að lesa þá fullyrðingu í grein Jóhanns Bærings að málum sem snúa að yngstu borgurunum sé sífellt frestað og reynt að þagga niður í fólki með plástrum. Þetta er einfaldlega ekki rétt. Allt kapp hefur verið lagt á að leysa þessi mikilvægu verkefni í samráði við foreldra. Samráðið getur stundum verið snúið þar sem skoðanir foreldra eru oft ólíkar. Alltaf hefur þó tekist að finna farsælar lausnir.

Gott samfélag

Það er reyndar skynsamlegt mat hjá Jóhanni Bæring, það sem hann nefnir sem lykilatriði í góðu samfélagi, góða leik- og grunnskóla, góðar aðstæður í atvinnumálum, góð heilbrigðisþjónusta og gott mannlíf. Það sem ég tel hinsvegar rangsnúið hjá honum er þegar hann virðist ekki telja tómstundaiðkun til mannlífs. Íþróttir og tómstundir, heitir pottar og samræðuvettvangur eru einmitt dæmi um undirstöðurnar í góðu mannlífi. Allt hitt sem Jóhann Bæring taldi upp sem lykilatriði í góðu samfélagi er sennilega býsna lítils virði ef ekki næst að skapa gott mannlíf.

Þegar lausna hefur verið leitað á brýnum verkefnum á þessu kjörtímabili þá hefur verið lögð mikil áhersla á að koma sem flestu á koppinn, enda eru áríðandi og mikilvæg verkefni gríðarlega mörg eftir langvarandi ládeyðu í sveitarfélaginu. Í því skyni hefur oft þurft að leita lausna sem eru fljótlegar og kalla á minni fjárútlát. Fjárfestingin á jarðhæð Tónlistarskólans mun nýtast okkur vel, hvaða starf sem verður rekið þar í framtíðinni.

Leikskólamál og önnur skólamál eru þau mál sem Í-listinn telur mikilvægust. Í-listinn mun áfram leggja áherslu á að í skólamálum verði Ísafjarðarbær í fremstu röð. Gott starf hefur verið unnið í þeim málum og verður áfram gert – á meðan Í-listinn ræður einhverju.

Sundlaugin fyrir skólastarfið er til staðar í Sundhöllinni og þarfnast lagfæringa. Gólfið í íþróttahúsinu hefur þarfnast lagfæringa árum saman og er nú efst á lista, vonandi verður hægt að takast á við það verkefni í sumar.

Samhliða áríðandi og mikilvægum verkefnum í skólamálum og innviðum þarf að gæta vel að því að láta ekki sálartetrið drabbast niður og því verður áfram lögð áhersla á gott mannlíf, íþróttir og tómstundir.

Gísli Halldór Halldórsson

Bæjarstjóri

 

DEILA