Nemendur og foreldrar takast á um hvort djammið sé snilld

Emmsjé Gauti daginn eftir djamm. Samsett mynd: nutiminn.is

Foreldrar menntaskólanema mæta ræðuliði Menntaskólans á Ísafirði í spennandi æfingaviðureign í gryfju MÍ á miðvikudagskvöldið. Þar mun væntanlega reyna á bæði lið er þau takast á um umræðuefnið „Djammið er snilld, þynnkan er lífsstíll!“ Þar sem foreldrar tala fyrir því, en nemendur gegn.

Ræðulið skólans skipa þau Hákon Ernir Hrafnsson, Ingunn Rós Kristjánsdóttir, Veturliði Snær Gylfason og Þórður Alexander Úlfur Júlíusson og voru þau öll að Hákoni undanskildum í ræðuliði skólans síðasta vetur. Það eru engir aukvisar fengnir til að reyna á getu nemendanna, en í foreldraliðinu eru séra Fjölnir Ásbjörnsson, Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir, sjúkraþjálfari og framkvæmdastjóri HSV og Svavar Þór Guðmundsson, kerfisstjóri.

Ræðukeppnin fer fram í gryfju MÍ klukkan 20 á miðvikudagskvöldið og eru nemendur skólans og foreldrar sérstaklega hvattir til að mæta. Á meðfylgjandi mynd sem birtist á Nútímanum má sjá samansafn af þynnkumyndum af rappstjörnunni Emmsjé Gauta þar sem hann hafði tekið saman lífið eftir djamm.

Ræðulið M.Í. undirbýr sig fyrir keppni í 8 liða úrslitum Morfís og mun skólinn mæta Menntaskólanum að Laugarvatni í heimaleik þann 16.febrúar.

annska@bb.is

DEILA