Mugison tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna

Mugison á útgáfutónleikum Enjoy! á Ísafirði. Mynd: Þorsteinn Haukur Þorsteinsson.

Í síðustu viku var tilkynnt um tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir árið 2016. Þar má finna í fjórum flokkum tónlistarmanninn Mugison, eða Örn Elías Guðmundsson. sem tilnefndur er til verðlaunanna fyrir plötu ársins og sem textahöfundur ársins, en hann steig ferskur fram á sjónarsviðið að nýju á síðasta ári eftir nokkurra ára hlé frá plötuútgáfu með gæðagripnum Enjoy! Einnig er hann tilnefndur fyrir í flokknum tónleikar ársins fyrir útgáfutónleika sína í Hörpu og sem tónlistarflytjandi ársins og ættu þær tilnefningar að koma fáum á óvart sem hafa séð hann á sviði. Mugison hefur verið aðsópsmikill á verðlaunahátíðinni og þá sér í lagi vegna platnanna Mugimama is this monkey music og Hagléls er hann fékk fern verðlaun í hvort skipti.

Í umsögn dómnefndar um Enjoy! segir: Maður gengur að gæðunum vísum hjá Mugison. Aldrei lognmolla hjá þessum öfluga tónlistarmanni. Skemmtileg plata. Einnig fær hann góða umsögn sem textahöfundur, þar sem segir: Örn Elías Guðmundsson gerir upp ýmislegt úr fortíðinni í ansi nærgöngulum textum á Enjoy. Um leið horfir hann brattur í spegilinn og sættist við manninn sem hann hefur að geyma.

Íslensku tónlistarverðlaunin verða haldin hátíðleg í Hörpu fimmtudaginn 2. mars. Þau verða sýnd beinni útsendingu á RÚV. Þar verða alls veitt verðlaun í 29 flokkum að meðtöldum Heiðursverðlaunum Íslensku tónlistarverðlaunanna.

annska@bb.is

DEILA