Móttaka veikra og slasaðra á HVEST utan dagvinnu

Hörður Högnason

Tvær fréttir hafa birst í BB af móttöku veikra/slasaðra einstaklinga sem leita beint til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða (HVEST) á Ísafirði utan dagvinnutíma. Þar er því lýst, hvernig viðkomandi skjólstæðingar HVEST og fylgdarmenn þeirra upplifa svörun og afgreiðslu starfsmanna legudeildar HVEST, starfsmanna „1700“ og neyðarvarða „112“ á erindum þeirra. Tilefni fréttanna er að vekja athygli á meintri slæmri, eða rangri móttöku, að mati viðmælenda blaðamanns. Það þykir okkur á HVEST mjög leitt og biðjumst velvirðingar á þeirri upplifun. Skýringa HVEST var því miður ekki leitað í fréttunum.

Almenningur er vanur skjótri og góðri þjónustu hjá starfsmönnum HVEST, bæði á heilsugæslunni og á sjúkrahúsinu og hefur biðtími á henni verið lítill, ef nokkur, um áratuga skeið. Því bregður fólki við þegar það upplifir annað, eða að breytingar verða á því hvert skal leita eftir læknishjálpinni. Vill HVEST gera hér grein fyrir þessum breytingum, ef það mætti útskýra betur hvernig standa skal að því að fá læknishjálp á HVEST á Ísafirði utan dagvinnutíma.

Starfsemin á HVEST utan dagvinnu

Á virkum dögum kl. 16 og til kl. 8 næsta morgun lokar skiptiborðið, heilsugæslustöðin, slysastofan og flestar aðrar sjúkratengdar deildir sjúkrahússins á Ísafirði, nema legudeildin, sem er alltaf opin. Þannig er það líka allan sólarhringinn um helgar og á helgidögum. Á kvöldvöktum á legudeildinni eru 3 starfsmenn, stundum 2 og af þeim ansi oft aðeins 1 hjúkrunarfræðingur. Á næturvöktum eru tveir starfsmenn, hjúkrunarfræðingur og sjúkraliði. Mönnunin miðast við meðalálag við umönnun sjúklinga á 15 rúma deild. Ef fleiri eru inniliggjandi, eða ef erfið veikindi hrjá sjúklingana, er álagið meira og erfiðara að fara af deildinni, eða annast símsvörun.

Eftir að starfsemi öldrunardeildar hætti, hefur legudeildin, sem annast alla bráðveika inniliggjandi sjúklinga, ekki möguleika á að leita þangað eftir hjálparhönd utan dagvinnutíma, þegar síminn eða sjónvarpsdyrasíminn biður um aðstoð hjúkrunarfræðings. Það kallar á breytt vinnubrögð, þó neyðarhjálp hafi auðvitað alltaf forgang.

Læknir er á bakvakt heima hjá sér og hann annast móttöku á HVEST vegna veikinda og slysa utan dagvinnu. Ef brýn þörf er á, biður hann legudeildina um aðstoð, eða kallar út hjúkrunarfræðinga og/eða lækna á bakvakt.

Vaktlæknir og beint samband

Til að ná eyrum bakvaktarlæknisins utan dagvinnu gat almenningur til skamms tíma hringt beint í hann um kvöld, nætur og helgar, eða hringt í 450 4500, sem starfsmenn legudeildar svara utan dagvinnu og beðið þau um að bjarga sér um hvaðeina sem á bjátaði. Ansi oft var um að ræða erindi, sem áttu heima á dagvinnutíma og jafnvel hjá öðru starfsfólki, eða deildum. Átti þetta einnig við um beinar komur á HVEST í þann margumrædda sjónvarpsdyrasíma. Tilkoma símanr. 1700 var þess vegna mikilvæg aðstoð fyrir  vansvefta bakvaktarlækni og starfsmenn legudeildarinnar og fríaði þá frá stöðugum símhringingum um hin ýmsu málefni.

Hvernig orðar maður hlutina?

Þegar hringt er eftir hjálp, þá skiptir miklu máli hvernig viðkomandi lýsir þörf sinni fyrir aðstoð. Dæmi: Er um að ræða einstakling, sem er kannski með lungnabólgu og þarf að hitta lækni, eða fannst hann meðvitundarlaus úti á götu, en hefur nú rankað við sér og bankar uppá? Þetta gæti þess vegna verið sama manneskjan, allt eftir orðavali viðmælandans. Ef sá fyrrnefndi hringdi í dyrasímann, 450 4500 eða 112, yrði honum bent á að hringja í 1700.   Hinn síðarnefndi fengi bráðaaðstoð og hjúkrunarfræðingurinn af legudeildinni væri líklega nærri dottin í stiganum í flýtinum við að hjálpa honum.

1700 eða 112

Af framansögðu er ljóst, að sá sem þarf að ná sambandi við HVEST vegna veikinda og slysa utan dagvinnu, þarf fyrst að tala við 1700, eða 112.

Einstaklingar utan úr bæ hringja í 1700, ef um er að ræða tilfallandi veikindi og slys sem þarfnast ekki sjúkrabíls (t.d. flensa, hausverkur síðan í gær, kviðverkir, tognaður ökkli, spurning um handleggsbrot, eða skurður á fingri). Hjúkrunarfræðingur svarar og metur þörfina fyrir aðstoð. Ef hjálpin getur ekki beðið dagvinnutíma, er viðkomandi gefið beint samband við síma læknisins. Læknirinn og sjúklingurinn mæla sér svo mót á slysastofu, heilsugæslustöð, eða leysa málið á annan hátt.

Ef um er að ræða alvarlegri slys og veikindi með áverkum og einkennum sem gætu þarfnast bráðahjálpar og sjúkrabíls (t.d. meðvitundarminnkun, öndunarerfiðleikar, krampar, slæmur brjóstverkur, hjartastopp, fótbrot, liðhlaup o.s.frv.) er hringt í 112. Þeir leiðbeina, kalla á sjúkrabílinn, ef með þarf og senda vaktlækninum og legudeildinni SMS um málið. Læknirinn ákveður strax, hvort hann mætir beint á staðinn, eða tekur á móti viðkomandi á spítalanum. Hjúkrunarfræðingurinn gerir þær ráðstafanir sem þarf, eftir alvarleika málsins.

Ef einhver bið er eftir sambandi við 1700 á mesta álagstíma og viðkomandi telur sig ekki geta beðið, þá er líklega um neyð að ræða og rétt að hringja í 112. Ef óvissa er um, hvort hringja skuli í 1700 eða 112, þá er betra að hringja í 112 fyrst. Þeir meta stöðuna og beina manni á 1700, ef svo ber undir.

„Æ, ég fer bara beint uppá spítala!“

Ef viðkomandi sneiðir framhjá 1700 og 112 og mætir beint að dyrasímanum á HVEST, þá bendir hjúkrunarfræðingurinn á legudeildinni honum á 1700, ef hann metur erindið þannig, en hringir strax á vaktlækninn, ef um bráðatilvik er að ræða. Í báðum tilfellum á hann að opna fyrir viðkomandi og vísa á sæti við afgreiðsluna, eða á biðstofu slysadeildar.

Komist hjúkrunarfræðingurinn frá deildinni, gætir hann að viðkomandi sjálfur, ef þess er þörf. Ef um alvarlegt bráðatilfelli er að ræða fer hann undantekningarlaust strax til viðkomandi, fer með hann á slysastofu, gerir viðeigandi ráðstafanir og bíður komu vaktlæknisins, eða kallar út hjúkrunarfræðing á bakvakt skurð- og slysadeildar til að leysa sig af.

Aldrei er hægt að komast hjá því að meiningarmunur um alvarleika geti orðið á milli heilbrigðisstarfsmanns og þess, sem þarfnast aðstoðar. Þar takast á faglegt mat, upplifun sjúklings á meini sínu og hvernig hann orðar ástand sitt. Mjög gott er samt að fá ábendingar frá viðskiptavinum HVEST um það sem betur má fara og er fólk hvatt til þess að láta í sér heyra og fá skýringar beint frá okkur. Blaðafrétt segir alltof oft bara aðra hlið sögunnar.

Hörður Högnason

framkvæmdastjóri hjúkrunar á HVEST

 

DEILA