Minnsta langtímaatvinnuleysi frá Hruni

Atvinnnuleysi var 2,5% á Íslandi á síðasta fjórðungi ársins 2016, samkvæmt Hagtíðindum sem Hagstofa Íslands birti í dag. Atvinnuleysi hefur minnkað jafnt og þétt síðustu ár og atvinnuþátttaka aukist. Á síðasta ársfjórðungi 2015 var atvinnuleysi 3,1%; á síðasta fjórðungi 2014 var það 4,1%; og 4,5% á síðasta fjórðungi 2013.

Alls voru 191.700 starfandi á íslenskum vinnumarkaði síðustu þrjá mánuði ársins 2016. Fimm þúsund manns voru án vinnu og í atvinnuleit.

Langtímaatvinnuleysi hefur minnkað. Þeim sem verið hafa atvinnulausir í ár eða lengur hefur fækkað úr 900 á síðasta ársfjórðungi 2015, í 300 á síðasta ársfjórðungi í fyrra. Langtímaatvinnuleysi mælist nú 0,2% og hefur ekki verið álíka lítið síðan í lok árs 2008, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar.

smari@bb.is

DEILA