Miklir möguleikar fyrir hendi segir bæjarstjóri

Tillaga Kanon arkitekta hreppti fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppninni.

Vinningstillaga Kanon arkitekta sýnir að miklir möguleikar eru fyrir hendi í Sundhöll Ísafjarðar að sögn Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar og formanns dómnefndar hugmyndasamkeppninnar. „Það er ljóst að miklir möguleikar eru fyrir hendi varðandi bætta aðstöðu og aðgengi, meðal annars möguleiki á 700 fermetra líkamsrækt á efstu hæðinni.“

Hann segir að nú þurfi að fara vandlega yfir tillögurnar og ákveða næstu skref. Tæknideild Ísafjarðarbæjar hefur áætlað að kostnaður við vinningstillögun gæti verið 408 milljónir kr. og minnsti hlutinn af því eru framkvæmdir við útisvæði og potta , eða 80 milljónir kr., en umræður meðal bæjarbúa hafa fyrst og fremst snúist um pottana.

Gísli Halldór leggur áherslu á að að nú sé komið að því að bærinn verði að taka ákvörðun um hvað skuli gera við Sundhöllina, hún standist ekki þær kröfur sem gerðar eru til sundstaða – hvort sem um er að ræða aðgengismál, búningsklefa eða starfsmannaaðstöðu.

Hann segir bæinn í stakk búinn að ráða við þessa framkvæmd. „Í ljósi allra annarra framkvæmda þá tæki þetta vel í. Þetta er því spurning um forgangsröðun. Ef þetta væri eina framkvæmdin þá væri auðvelt að ráðast í verkið, en mikilvægu verkefnin eru mörg og bæjarsjóður sem betur fer betur í stakk búinn til að takast á við þau en verið hefur í áratugi.“

Hér má sjá niðurstöður hugmyndasamkeppninnar

smari@bb.is

DEILA